Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Stjarnan - Grindavík 5-0 | Guðjón með þrennu í stórsigri Stjörnumanna | Sjáðu mörkin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stjarnan vann 5-0 stórsigur á spútnikliði Grindavíkur í 12.umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld. Stjarnan lyftir sér þar með upp í 2.sæti deildarinnar og fer uppfyrir Grindvíkinga á markatölu.

Fyrsta markið kom strax eftir 45 sekúndur þegar Baldur Sigurðsson skoraði af harðfylgi í teignum. Grindvíkingar vildu meina að brotið hefði verið á Kristijan Jajalo markverði þeirra og höfðu nokkuð til síns máls en Vilhjálmur Alvar dómari lét markið standa.

Staðan í hálfleik var 1-0 en í síðari hálfleik brustu allar flóðgáttir og Stjörnumenn keyrðu yfir gestina.

Guðjón Baldvinsson skoraði þrennu á tólf mínútna kafla snemma í hálfleiknum og Hilmar Árni Halldórsson bætti fimmta marki heimamanna við þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.

5-0 sigur Stjörnumanna staðreynd og Grindavík búið að fá á sig níu mörk í síðustu tveimur deildarleikjum.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn voru einfaldlega betri á öllum sviðum knattspyrnunnar í kvöld. Þeir voru grimmari, baráttuglaðari og tóku Grindvíkinga í ærlega kennslustund.

Markið strax í upphafi sló Grindvíkinga út af laginu og Stjörnumenn hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik keyrðu heimamenn svo yfir gestina sem vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Það fór allt úrskeiðis sem hægt var hjá Grindvíkingum og Stjörnumenn áttu afar auðvelt með að skora gegn andlausu liði gestanna.

Hverjir stóðu upp úr?

Guðjón Baldvinsson skoraði þrjú mörk og var þar að auki sívinnandi í framlínu Stjörnunnar. Hilmar Árni Halldórsson er sífellt ógnandi og skoraði þar að auki gott mark í lokin. Hann ógnar auðvitað svo alltaf í föstum leikatriðum. Eyjólfur Héðinsson var frábær á miðju heimamanna og Baldur Sigurðsson og Alex Þór Hauksson voru fínir þar að auki. Í raun átti enginn Stjörnumaður slæman dag.

Hjá Grindavík er varla hægt að taka neinn út sem stóð fyrir sínu. Jajalo varði í nokkur skipti en þurfti að sækja boltann fimm sinnum í netið. Það er þó erfitt að saka hann um slaka frammistöðu í mörkum Stjörnunnar.

Hvað gekk illa?

Það gekk allt illa hjá Grindavík. Baráttan, vinnusemin og leikgleðin sem þeir hafa sýnt í Pepsi-deildinni til þessa var ekki til staðar í dag og ljóst að Óli Stefán hefur verk að vinna fyrir næsta leik.

Sóknarlega ógnuðu þeir nokkrum sinnum með skyndisóknum, sérstaklega í fyrri hálfleik, en í þeim síðari var afar lítið í gangi. Þeir söknuðu Björn Bryde úr vörninni og Andra Rúnari Bjarnasyni voru afar mislagðir fætur í framlínunni.

Hvað gerist næst?

Næst eiga Stjörnumenn leik í undanúrslitum Borgunarbikarsins gegn ÍBV sem þeir mæta svo á nýjan leik í Pepsi-deildinni á sunnudag. Báðir leikirnir fara fram á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Grindvíkingar fá Víking frá Reykjavík í heimsókn á mánudaginn eftir rúma viku. Þar kemur í ljós hvort Grindavíkurblaðran sé sprungin eða hvort eitthvað loft sé enn til staðar.



Stjarnan (4-3-3) Haraldur Björnsson 6 – Jóhann Laxdal 7, Óttar Bjarni Guðmundsson 6, Daníel Laxdal 6, Jósef Kristinn Jósefsson 6 (´68 Hörður Árnason 6) – Alex Þór Hauksson 7, Baldur Sigurðsson 7, Eyjólfur Héðinsson 8 (´71 Máni Austmann Hilmarsson) – Hólmbert Aron Friðjónsson 5 (´46 Heiðar Ægisson 7), Guðjón Baldvinsson 9* (Maður leiksins), Hilmar Árni Halldórsson 6.

Grindavík (5-4-1) Kristijan Jajalo 5 – Aron Freyr Róbertsson 4, Brynjar Ásgeir Guðmundsson 4, Matthías Örn Friðriksson 3, Fransisco Eduardo Cruz Lemaur 3, Marínó Axel Helgason 3 (´56 William Daniels 4) – Sam Hewson 4, Alexander Veigar Þórarinsson 5 (´68 Nemanja Latinovic 4), Gunnar Þorsteinsson 4, Milos Zeravica 3 (´87 Juan Manuel Ortiz Jimenez) – Andri Rúnar Bjarnason 3.

Rúnar Páll: Stoltur af mínu liði
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar var vitaskuld sáttur eftir 5-0 sigur sinna manna gegn spútnikliði Grindavíkur í kvöld.

„Ég er mjög ánægður og stoltur af mínu liði. Það var gríðarlega mikil einbeiting og vinnusemi og við vorum þolinmóðir gegn þeim. Þeir lágu aftarlega og voru hættulegir í skyndisóknum fyrir hlé. En við vorum klókir og klárum þá svo feykivel í seinni hálfleik,“ sagði Rúnar Páll við Vísi eftir leikinn í kvöld.

„Þetta er annar leikurinn í röð þar sem við höldum hreinu og Grindavík fékk nú ekki mörg færi í kvöld. Við erum að gera varnarvinnuna vel og það er gríðarleg vinnusemi í liðinu. Það er ekki hægt að vera annað en ánægður eftir svona leik eins og í kvöld. Stigin þrjú eru mikilvæg,“ bætti Rúnar við en Stjörnumenn eru nú í 2.sæti Pepsi-deildarinnar, þremur stigum á eftir Val sem á leik til góða.

Guðjón Baldvinsson skoraði þrennu í kvöld og Rúnar Páll var ánægður með framherjann knáa í kvöld.

„Hann var mjög góður í kvöld eins og allt liðið. Frábært fyrir hann að skora þrjú mörk og við hefðum getað gert fleiri miðað við færin sem við fengum. Frábær leikur í alla staði.“

Stjörnumenn eru nú þremur stigum á eftir Val sem eiga leik til góða gegn Ólsurum á þriðjudag.

„Við verðum bara að hugsa um okkur núna. Næsti leikur er gegn ÍBV í bikarnum og þar ætlum við að eiga góðan leik og komast í úrslitaleikinn. Það er næsta verkefni,“ sagði Rúnar Páll að lokum.

Óli Stefán: Í fyrsta sinn sem ég skammast mín fyrir mitt lið
vísir/andri marinó
„Hvar skal byrja? Í dag vantaði allt. Grunnvinnan var ekki til staðar, við vorum undir í krafti og baráttu. Það var enginn leiðtogi inni á vellinum, við vorum huglausir og agalausir. Við fórum út úr öllum þeim gildum sem við höfum unnið eftir, það var í raun allt að í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem ég skammast mín fyrir liðið mitt, svo hörmulegt var þetta,“ sagði bálillur þjálfari Grindavíkur, Óli Stefán Flóventsson, eftir 5-0 gegn Stjörnunni í Pepsi-deildinni í kvöld.

Staðan í hálfleik í dag var 1-0 en eftir að Guðjón Baldvinsson skoraði þrennu á tólf mínútum snemma í seinni hálfleik var ljóst hverjir myndu taka stigin þrjú í kvöld.

„Ég var alls ekki ánægður í fyrri hálfleik með það að vera undir í öllum þessum grunnatriðum. Við ætluðum að bretta upp og mæta þeim og að sjálfsögðu halda í skipulagið og sækja þetta mark. Þegar leikurinn var að renna frá okkur þá misstum við alla stjórn í stað þess að reyna að stöðva blæðinguna. Þetta var ótrúlega vont,“ bætti Óli Stefán við.

Fyrsta mark Stjörnunnar kom strax eftir 45 sekúndur og það eftir klafs í teignum þar sem Grindvíkingar vildu meina að brotið hefði verið á Kristijan Jajalo markverði þeirra.

„Það sýndist mér klárt brot því Kristijan er með takkaför á lærinu eftir það. En það atriði eitt og sér, ég spái ekki í það núna. Ég er fyrst og fremst brjálaður yfir frammistöðu minna drengja í dag. Ég er brjálaður.“

Grindavík hefur komið öllum á óvart í sumar og var í 2.sæti fyrir leikinn í kvöld. Í síðustu tveimur leikjum hafa þeir hins vegar fengið á sig níu mörk og það án þess að skora og einhverjir sem vilja meina að Grindavíkurblaðran sé sprungin.

„Með svona frammistöðu er það bara rétt. Það var ekkert loft i okkur í dag. Við getum ekki bara talað, við þurfum að vinna og vinna og alltaf að gera það. Ef við förum út úr okkar gildum þá eigum við ekkert erindi í þessa deild. Ég vil biðja bara mitt fólk afsökunar sem kom þó að styðja okkur í dag, þetta var til háborinnar skammar,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur að lokum.

Guðjón: Ánægður að skora fullkomna þrennu
Guðjón Baldvinsson var í aðalhlutverki hjá Stjörnunni í kvöld. Hann skoraði þrennu á tólf mínútna kafla í seinni hálfleik og blaðamanni lék forvitni á að vita hvort hann hefði einhvern tíman náð þrennu á jafn skömmum tíma áður.

„Ekki svo ég muni. Þetta var líka fullkomin þrenna, vinstri, hægri og skalli. Ég er ánægður með það,“ sagði Guðjón í samtali við Vísis strax að leik loknum í kvöld.

Guðjón vildi meina að Stjarnan hefði átt að klára leikinn strax í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 1-0 eftir mark Baldurs Sigurðssonar strax á 1.mínútu leiksins.

„Mér fannst við geta drepið þennan leik strax. Þeir héldu sér lengur inni í leiknum en mér fannst þeir eiga skilið. Mér fannst við eiga að vera komnir í 3-0 strax í fyrri hálfleik,“ bætti Guðjón við.

„Mér finnst oft þegar við náum góðum sigrum að þá sé hitt liðið arfaslakt. Ég held að það séum bara við sem erum að spila vel. Við erum góðir á góðum degi og ef við spilum svona getum við rúllað yfir liðin nánast. Ég er mjög ánægður með hvernig við spiluðum í dag.“

Framundan eru tveir leikir gegn ÍBV, annars vegar í undanúrslitum Borgunarbikarsins og síðan í Pepsi-deildinni um næstu helgi.

„Það er alltaf markmiðið að vinna þá titla sem eru í boði. Ef við höldum þessu tempói áfram þá lofar það góðu fyrir framhaldið,“ sagði Guðjón að lokum.

Óli Stefán á hliðarlínunni í kvöldVísir/Andri Marínó
vísir/andri marinó
Vísir
Hilmar Árni Halldórsson átti góðan leik fyrir Stjörnuna í kvöld.Vísir/Andri Marínó
Úr leik liðanna í kvöldVísir/Andri Marínó

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira