Lífið

Naomi Watts þjökuð af samviskubiti

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Naomi Watts á tvo unga drengi.
Naomi Watts á tvo unga drengi. Vísir/getty
“Maður er alltaf þjakaður af samviskubiti alveg sama hversu miklu maður kemur í verk. Ég hugsa í sífellu að ég hefði nú getað gert eitthvað betur,” þetta sagði Leikkonan Naomi Watts um þá togstreitu sem hún upplifir í lífi sínu. Þegar hún er í vinnunni er hún með samviskubit yfir því að geta ekki sinnt strákunum sínum og þegar hún er með börnunum er hún með samviskubit yfir því að vera ekki í vinnunni. 

Watts prýðir forsíðuna á nýjasta tölublaði Psychologies. Í viðtalinu ræðir hún opinskátt um foreldrahlutverkið, einmanalegu upphafsárin á ferlinum og listina. Hún hefur átt góðu gengi að fagna sem leikkona en hún upplifir togstreitu á milli starfsins og barna sinna, rétt eins og við hin.

Í viðtalinu í Psychologies er Watts spurð að því hvernig hún takist á við erfiðar tilfinningar sem fylgja því að vera foreldri undir mikilli pressu. Leikkonan segir það gjarnan lenda á konum að þurfa að sinna mörgum verkefnum í einu; gera börnin tilbúin fyrir skólann, sjá til þess að þau fái góða næringu og allt sem börn þarfnast og gera þær það gjarnan á hlaupum, segir Watts.

Naomi með sonum sínum á göngu.Vísir/getty
Hún segir að þetta fari jafnvel eftir dagsforminu. Það komi dagar þar sem allt virðist ganga á afturfótunum og þá segist hún vera mjög gagnrýnin í eigin garð. Inn á milli séu dagar þar sem henni gangi vel og líði eins og hún hafi áorkað miklu og staðið sig frábærlega í að annast börnin sín. 

„Maður getur ekki alltaf sinnt öllu eins vel og maður vildi. Ég vinn mikið og þarf þar af leiðandi að kljást við erfiðar tilfinningar sem kvikna þegar ég get ekki breitt sængina yfir börnin mín jafn oft og ég vildi. Ég reyni mitt allra besta,“ segir Watts.

Naomi Watts segir mikla pressu vera á mæðrum.Vísir/gety
Watts hefur leikið ólíkar kvenpersónur á hvíta tjaldinu en margar persónurnar sem hún hefur túlkað hafa einmitt verið mæður. Watts sló meðal annars í gegn í kvikmyndinni The Impossible með eftirminnilegri frammistöðu þegar hún lék Mariu sem ásamt fjölskyldu sinni varð fyrir flóðbylgju í sumarfríi erlendis. Í þeirri mynd fylgjumst við með Mariu og syni hennar berjast fyrir lífi sínu en auk þess björguðu mæðginin ókunnugu barni.

Nú síðast lék hún sálfræðinginn Jean Halloway í þáttaröðinni Gipsy á Netflix streymisveitunni. Í þáttunum var þessi togstreita í forgrunni þar sem Halloway gengur jafnvel svo langt í þrá sinni fyrir frelsi að hún lifir tvöföldu lífi sem blaðamaðurinn Diane Hart sem á í ástarsambandi við unga konu.

Naomi Watts með Sophie Cookson mótleikkonu sinni í þáttaröðinni Gipsy.Vísir/getty





Fleiri fréttir

Sjá meira


×