Sport

Fjögur heimsmet á HM í sundi í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lilly King fagnar heimsmeti sínu.
Lilly King fagnar heimsmeti sínu. Vísir/Getty
Fjögur heimsmet féllu á þriðja degi heimsmeistaramótsins í sundi sem fram fer í Búdapest í Ungverjalandi þessa dagana.

Bretinn Adam Peaty tvíbætti heimsmetið í 50 metra bringusundi og hin bandaríska Lilly King og hin kanadíska Kylie Masse settu líka heimsmet þegar þær tryggðu sér gull.

Adam Peaty sló heimsmet sitt í 50 metra bringusundi tvisvar og varð líka fyrsti maðurinn til að synda 50 metra bringusund á undir 26 sekúndum. Hann bætti fyrst metið í undanrásum (26,10 sekúndur) og svo aftur í undanúrslitum (25,95 sekúndur).

Lilly King tryggði sér heimsmeistaratitilinn í 100 metra bringusundi þegar hún synti á 1:04,13 sekúndum og bætti fjögurra ára gamalt heimsmet Litháans Rutu Meilutyte.  Hin umdeilda rússneska sundkona Yuliya Efimova varð að sætta sig við bronsið því bandaríska sundkonan Katie Meili náði silfrinu.

Kylie Masse tryggði sér heimsmeistaratitilinn í 100 metra baksundi með því að koma í mark á 58,10 sekúndum en gamla heimsmetið átti hin breska Gemma Spofforth sem synti á 58,12 sekúndum árið 2009. Kathleen Baker frá Bandaríkjunum fékk silfur og Ástralinn Emily Seebohm tók bronsið.

Heimsmetið var orðið átta ára gamalt og Gemma Spofforth synti í sundbúningum fræga þegar hún setti metið en sá búningur er ekki leyfður lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×