Innlent

Sterk brennisteinslykt við Vík í Mýrdal

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur, segir lyktina hugsanlega tengjast skjálftunum í Kötlu í gær.
Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur, segir lyktina hugsanlega tengjast skjálftunum í Kötlu í gær. vísir/gva
Íbúar og vegfarendur í og við Vík í Mýrdal hafa í dag orðið varir við mikla brennisteinslykt og hafa fréttastofu borist ábendingar vegna hennar. Þegar haft var samband við Veðurstofu Íslands hafði fólk einnig hringt inn þangað með ábendingar um lyktina.

„Það er alltaf lykt þarna sérstaklega í tengslum við Múlakvísl,“ segir Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi.

Um er að ræða lykt af gasi sem heitir  brennisteinsvetni. Kristín segir að lyktin sé ekki óvanaleg en hún sé vissulega sterkari núna og tengist hugsanlega skjálftunum sem voru í Kötlu í gærkvöldi.

„Þarna er þessi eldstöð, Katla, með öflugt jarðhitakerfi sem er síðan tengd vatnakerfinu í gegnum Mýrdalsjökul. Jökulísinn sem liggur að jarðhitasvæðunum bráðnar og vatnið lekur svo í árnar. Það má því segja að lyktin sé úr jarðhitakerfinu undir Mýrdalsjökli,“ segir Kristín.

Hún segir að lítil skjálftavirkni sé í Kötlu núna en tveir nokkuð snarpir skjálftar urðu í öskjunni í gærkvöldi. Sú hrina hefur hins vegar fjarað út.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×