Innlent

Formaðurinn segir manneklu hjá lögreglunni leiða til slysa

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Landssamband lögreglumanna vill fá að nota rafbyssur í erfiðum aðstæðum.
Landssamband lögreglumanna vill fá að nota rafbyssur í erfiðum aðstæðum. vísir/eyþór
„Stærsti punkturinn í þessu öllu saman er þessi gríðarlega undirmönnun um land allt. Við erum búin að vara við því að það verði slys, hvernig svo sem þau verða, vegna þess,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna. Mannekla er að hans sögn orðin gríðarlegt vandamál innan raða lögreglunnar.

Snorri vill ekki tjá sig sérstaklega um mál tveggja lögreglumanna sem grunaðir eru um að hafa beitt tvo menn grófu ofbeldi fyrir utan Hamborgarabúlluna við Dalveg í Kópavogi í maí síðastliðnum, með þeim afleiðingum að maður tvífótbrotnaði og þurfti að gangast undir skurðaðgerð. Fréttablaðið greindi frá málinu í gær en maðurinn verður óvinnufær í um sex mánuði hið minnsta.

Atvikið átti sér stað þegar verið var að handtaka annan manninn vegna drykkjuláta inni á veitingastaðnum. Maðurinn sýndi mikinn mótþróa við handtökuna og sæta lögreglumennirnir rannsókn vegna gruns um að hafa barið mennina tvo með kylfum og skellt bílhurð á fætur annars mannsins.

Snorri segir að atvik sem þessi séu alvarleg en að hins vegar sé ljóst að lögreglan eigi erfitt með að takast á við erfiðustu aðstæðurnar sökum mikillar manneklu. Landssambandið hefur óskað eftir heimild til að fá að nota rafbyssur í slíkum aðstæðum, en Snorri segist ekki geta sagt til um hvort það hefði getað haft áhrif á umrætt atvik.

„Við erum margoft búin að benda á þann möguleika fyrir lögregluna. Það er ansi stórt stökk í valdbeitingarstiganum að fara úr kylfu og piparúða yfir í skotvopn en þessar rafbyssur koma þar á milli – svo ég tali almennt, en ekki út frá þessu atviki.“

Aðspurður segir Snorri ekkert óeðlilegt við að lögreglumennirnir tveir séu enn við störf, þrátt fyrir alvarlegar ásakanir. „Lögreglumenn eru eins og aðrir borgarar og þegnar þessa lands, að þeir eru saklausir uns sekt þeirra er sönnuð með dómsuppkvaðningu. Þannig að ég sé í sjálfu sér ekki af hverju það sama ætti ekki að gilda um lögreglumenn og aðra sem fá á sig kæru,“ segir Snorri.

„Eins verður líka að huga að því að þegar búið er að taka ákvörðun um hluta refsingar eru launin skorin niður til helminga. Þannig að það eru ýmis sjónarmið í málinu, og þau eru ekki eins klippt og skorin og þau líta oft út fyrir að vera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×