Innlent

Skátatjöldin fuku vítt og breitt um Suðurland

Jakob Bjarnar skrifar
Ef einhverjir kunna að tjalda, þá eru það skátar en ekki dugði það til í stormi sem þeir lentu í á Suðurlandi í nótt.
Ef einhverjir kunna að tjalda, þá eru það skátar en ekki dugði það til í stormi sem þeir lentu í á Suðurlandi í nótt.

Nóttin reyndist mörgum erlendum skátum erfið vegna storms sem gekk yfir Suðurland.

„Í Hveragerði leitaði hópur skáta inn í gróðurhús en á Selfossi fuku og eyðilögðust tugir tjalda hjá skátunum. Tjón á stórum tjöldum og búnaði hefur ekki enn verið metið,“ segir Sölvi Melax kynningarfulltrúi hins mikla skátamóts sem nú er yfirstandandi á Íslandi, með þátttöku fimm þúsund skáta sem hafa dreift sér um landið - World Scout Moot 2017.

Í sérstakri tilkynningu frá Sölva er vitnað í Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta sem segir:

„Veðrið í gærkvöldi og nótt kom mörgum erlendum skátum á óvart, enda veðurhæðin meiri en þeir eiga að venjast í heimalöndum sínum. Í gærkvöldi voru tjaldbúðirnar á Selfossi teknar niður og allir fluttir í skóla í nágrenninu. Unnið er að því að flytja búðirnar á Úlfljótsvatn eftir dagskrá í kvöld enda koma allir 5.000 skátarnir Úlfljótsvatn á morgun.“

Eitt góðverk á dag. Um fimm þúsund skátar vinna nú hin og þessi góðverk vítt og breytt um landið, sjálfboðaliðastörf þar sem landið sætir átroðningi vegna aukins fjölda ferðamanna.

En, áður en kemur til þess munu skátarnir hins vegar mála höfuðborgina appelsínugula því þeir ætla að efna til hópdans á Skólavörðustíg nú klukkan fimm, eins og Vísir hefur þegar greint frá.

Framkvæmdaraðilar mótsins hafa unnið hörðum höndum í morgun við að aðstoða skátana við að fá nauðsynlegan viðlegubúnað, ýmist lánaðan eða keyptan. Vonir standa til að í kvöld verði búið að leysa þetta vandamál.

Alls eru um 5.000 skátar í sjálfboðastörfum víða um land. Skátar hafa meðal annars unnið við stígagerð við Seljalandsfoss, í Reykjadal og á mörgum fleiri stöðum sem hafa verið í umræðunni vegna mikils álags ferðamanna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×