Innlent

Leysa mánaðalangar deilur innan ÖSE með skipun Ingibjargar Sólrúnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Vísir/Stefán
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, verður skipuð forstjóri Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ODIHR) í næstu viku.

Skipun hennar er liður í sáttatilögu sem binda á endi á mánaðalangar deilur innan öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) um hvaða ríki skulu hljóta fjórar háttsettar stöður innan stofnunarinnar.

Talað er um deilurnar sem einhverja erfiðustu flækju sem komið hafi upp í sögu stofnunarinnar og að aldrei áður hafi jafn margar þungavigtarstöður staðið auðar jafn lengi.

Ekki síst Rússum að þakka

Í samtali við Reuters segir Sebastian Kurz, utanríkisráðherra Austurríkis og núverandi formaður ÖSE, að stofnunin hafi þurft að kljást við mikið vantraust milli aðildarríkjanna 57, ekki síst Rússa og Bandaríkjanna. Ómögulegt hafi verið til þessa að komast að einróma samkomulagi um hvernig skuli skipa í stöðurnar fjórar.

Nú virðist hins vegar sjást til lands og segir Kurz það ekki síst vera fyrir tilstuðlan Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.

Auk skipunar Ingibjargar Sólrúnar hafa aðildarríkin sæst á að Svisslendingurinn Thomas Greminger verði aðalritari, hinn ítalski Lamberto Zannier haldi utan um minnihlutahópamál og franski, fyrrverandi sósíalistaleiðtoginn Harlem Desir fái fjölmiðlafrelsi í sinn hlut.

Skipunin þarf að fara í gegnum formlegt ferli en búist er við að hún verði staðfest í næstu viku.

Ekki náðist í Ingibjörgu Sólrún Gísladóttur við vinnslu þessarar fréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×