Innlent

Fangar vilja líkamsskanna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Líkamsskannar hafa verið vinsælir á flugvöllum.
Líkamsskannar hafa verið vinsælir á flugvöllum. Vísir/AFP

Afstaða, félag fanga, vill fá líkamsskanna í fangelsi landsins til notkunar við líkamsleit. Fyrir lok þessa árs munu öll öryggis- og gæsluvarðhaldsfangelsi í Danmörku taka slíkan búnað í gagnið.

„Ég held að þetta sé mun mannúðlegra heldur en þetta kerfi sem er í dag til dæmis. Þetta er svo niðurlægjandi fyrir fólk og sérstaklega aðstandendur sem hafa ekkert brotið af sér. Árangurinn er ekki mikill. Ég held að þetta muni auka aðgangs­eftirlit og styrkja öryggi í fangelsunum,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.

Líkamsskannar hafa í nokkuð langan tíma verið notaðir á hinum ýmsu flugvöllum víða um heim. Fram kemur í yfirlýsingu Afstöðu að slíkir skannar sýni alla hluti sem geymdir eru á líkamanum sem ekki teljist eðlilegur hluti hans. Þetta leiði til þess að hægt sé að skanna alla sem koma inn og út úr fangelsi án þess að snerta þá. Ef eitthvað sést óvenjulegt er hægt að færa viðkomandi í frekari skoðun.

Guðmundur segir að það sé afstaða flestra fanga að þeir vilji skanna. „Það eru allir fangar sammála því að líkamsleitir eru niðurlægjandi og erfiðar og fæli aðstandendur frá því að koma í heimsókn.“

Fram kemur í yfirlýsingunni að líkamsleit hafi verið gerð á fólki þar sem ekki liggur fyrir nægjanlega rökstuddur grunur um smygl og þá hafi sumir heimsóknargestir átt mjög erfitt með slíkt vegna fötlunar. Þá hafi handahófskennd líkamsleit ekki borið nægjanlegan mikinn árangur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira