Lífið

Sló góðgerðarhögg – aftur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sigurbjörg Guttormsdóttir, leikskólakennari á barnaspítalanum, Hjörtur Freyr Vigfússon, markaðsstjóri Securitas, Örn Sveinsson og Jóhanna Guðbjörnsdóttir, aðstoðarmaður framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs Landspítalans.
Sigurbjörg Guttormsdóttir, leikskólakennari á barnaspítalanum, Hjörtur Freyr Vigfússon, markaðsstjóri Securitas, Örn Sveinsson og Jóhanna Guðbjörnsdóttir, aðstoðarmaður framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs Landspítalans.


Auðvitað eru mörg frábær góðgerðarsamtök á Íslandi en ég hef fylgst með því gegnum árin sem Hrings­konur hafa gert fyrir barnaspítalann og hann er bara rótgrónastur í hjartanu. Þess vegna ákvað ég að styrkja hann,“ segir Örn Sveinsson tæknimaður hjá Sagafilm sem vann góðgerðarhöggskeppni á golfmóti Securitas nýlega og lét verðlaunaféð, 80.000 krónur, renna til Barnaspítalans. Sem væri kannski ekki í frásögur færandi nema af því að hann vann líka í fyrra og hafði sama hátt á. Hvernig fer hann að þessu?

„Golfmót Securitas er fyrirtækjamót, þar sem einum fulltrúa frá stærstu viðskiptavinunum er boðið á golfmót á Suðvesturhorninu. Það var í Hveragerði í fyrra og Borgarnesi núna. Í ár voru þátttakendur 68. Svo er þetta þannig að forstjóri Securitas er á einum teignum og slær sinn bolta inn á grínið. Fyrirtækið heitir 10 þúsund krónum hverjum þeim sem er nær holunni en hann og þeir fara í pott sem síðan er dregið úr. Í fyrra voru sjö nær holunni og ég einn af þeim. Í ár vorum við átta og ég var aftur dreginn út.“



Sem sagt ekkert endilega næstur holunni? „Nei, ekki endilega. Þetta snýst bara um að vera fyrir innan forstjórann. Þegar allir eru búnir að spila er matur og verðlaunaafhending og ég varð að ákveða þar í hvaða góðgerðarmál ég ætlaði að setja peninginn.“

Hefurðu sótt mikið til barnadeildarinnar? „Nei, ég er blessunarlega heppinn. Á þrjú börn og hef bara einu sinni á ævinni þurft að njóta þjónustu deildarinnar sem foreldri, svo það er ekki þannig að ég hafi verið fastagestur þar.“

Ertu dálítið góður í golfi? „Það fer eftir því hvernig á það er litið og við hvern er miðað. Ég hef stundað golf í mörg ár og nýt þess. Þar er frábær félagsskapur og útivera en það besta við golfið er að í því er maður alltaf að reyna að bæta eigin árangur frá degi til dags og sigra sjálfan sig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×