Innlent

Rannsókn lögreglu á manndrápsmáli í Mosfellsdal lýkur fljótlega

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Mosfellsdal miðvikudagskvöldið 7. júní.
Frá vettvangi í Mosfellsdal miðvikudagskvöldið 7. júní. Vísir
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á manndrápi í Mosfellsdal miðar vel og í raun er mjög lítið eftir í rannsókninni að sögn Ævars Pálma Pálmasonar, lögreglufulltrúa.

Von er á síðustu gögnunum í málinu á allra næstu dögum og er því gert ráð fyrir að skila málinu til héraðssaksóknara fljótlega sem ákveður hvort gefin verði út ákæra í málinu.

 

Einn maður, Sveinn Gestur Tryggvason, situr í gæsluvarðhaldi grunaður um manndrápið en Arnar Jónsson Aspar lést eftir að hafa orðið fyrir hrottalegri líkamsárás við heimili sitt að Æsustöðum í Mosfellsdal þann 7. júní síðastliðinn.

Auk Sveins voru fimm einstaklingar handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að málinu en fjórum þeirra var sleppt úr haldi þann 15. júní.

Þeim fimmta, Jóni Trausta Lútherssyni, var svo sleppt úr haldi þann 27. júní eftir að Hæstiréttur felldi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur úr gildi. Þremur dögum síðar var hann svo farinn úr landi en allir þeir sem handteknir voru í upphafi hafa enn stöðu sakbornings að sögn Ævars Pálma.

Gæsluvarðhaldið yfir Sveini rennur út á föstudaginn í næstu viku. Ævar Pálmi segir að ekki liggi fyrir hvort að farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald en hann telji þó líklegt að slík krafa verði lögð fram.

Aðspurður segir Ævar Pálmi að Sveinn Gestur hafi ekki verið yfirheyrður frá því að hann var úrskurðaður síðast í gæsluvarðhald. Þá hafa engar aðrar yfirheyrslur farið fram í tengslum við málið.


Tengdar fréttir

Jón Trausti Lúthersson farinn úr landi

Jón Trausti var látinn laus úr gæsluvarðhaldi í vikunni. Lögregla veit ekki til þess að aðrir tengdir málinu séu farnir úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×