Lífið

Það er búið að redda tjaldi

"Ég hef bara leitað í fróðleik frá forfeðrum og -mæðrum sem kunnu að nota grös á góðan hátt,“ segir Sóley um jurtanotkun sína.
"Ég hef bara leitað í fróðleik frá forfeðrum og -mæðrum sem kunnu að nota grös á góðan hátt,“ segir Sóley um jurtanotkun sína. Vísir/Stefán
Það er stórafmæli en ég ætla bara að vera með pulsupartí í garðinum. Það er búið að redda tjaldi. Mér sýnist samt á spánni að það verði ágætis veður, að minnsta kosti þurrt,“ segir Sóley Elíasdóttir, leikkona og húðsnyrtivöruframleiðandi, um fimmtugsafmælið í dag.

Hún kveðst búin að fara í eina afmælisferð með æskuvinkonum. „Hluti af hópnum varð fimmtugur í fyrra, við fórum til Ítalíu í vor og tókum mennina okkar með. Svo ætlum við fjölskyldan að fara á skíði um áramótin til Frakklands, átta eða níu saman. Erum fyrir löngu byrjuð að safna fyrir þeirri ferð. Ég hlakka rosalega til.“

Sóley kveðst ekki hafa ætlað að vera með neitt boð í dag. „Bæði var ég svo brennd af því að reyna sem barn að halda upp á afmæli á þessum tíma þegar allir voru úti um allt og svo líka út af þessum ferðum. En mér snerist hugur og ég ákvað að rigga upp einföldu partíi sem yrði ekki of kostnaðarsamt.“

Sumarið er tíminn sem Sóley safnar íslenskum jurtum í framleiðslu sína á húðvörum. „Ég tíni frá júní og út ágúst, já, reyndar lengra fram á haust, eftir því hverju ég er að sækjast eftir.

„Við notum birkið mikið, laufin eru virk um miðsumarið en ef maður vill ná eiginleikum úr berkinum, þá er það betra á haustin. Laufin eru græðandi en börkurinn eykur teygjanleika húðarinnar. Sortulyngið tíni ég líka á haustin, í því eru efni sem gefa húðinni ljóma.“ Þetta er greinilega mikil stúdía en Sóley kveðst samt enginn sérfræðingur vera.

„Ég hef einkum leitað í fróðleik frá forfeðrum og -mæðrum sem kunnu að nota grös á góðan hátt.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×