Innlent

Slegist um sætin á sumarjazzi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Brynjólfur Óli Árnason, rekstrarstjóri Jómfrúarinnar,
Brynjólfur Óli Árnason, rekstrarstjóri Jómfrúarinnar,
Veitingastaðurinn Jómfrúin bregður ekki út af vananum í ár og stendur fyrir tónleikaröð í allt sumar. Á laugardögum safnast allt að þrjú hundruð manns saman til að hlýða á jazztóna.

Síðastliðin tuttugu og tvö ár hafa aðstandendur veitingastaðarains Jómfrúarinnar við Lækjargötu efnt til tónleikaraðar á sumrin. Í júní, júlí og ágúst má reiða sig á ókeypis tónleika klukkan þrjú í portinu fyrir aftan smurbrauðsstaðinn.

Þegar fréttastofa leit við í dag á áttundu tónleikum sumarsins var kvartett söngkonunnar Kristjönu Stefánsdóttur að flytja brasilísk bossa nova lög og klassíska jazz standara.

Brynjólfur Óli Árnason, rekstrarstjóri Jómfrúarinnar, segir aðsóknina alltaf góða, sama hvernig viðrar. „Við höfum örsjaldan þurft að fara inn vegna óveðurs en annars stöndum við þetta af okkur og fólk kemur klætt eftir veðri," segir hann.

Um 170 sætum er komið fyrir í portinu á meðan tónleikunum stendur auk þess sem 100 sæti eru inni á veitingastaðnum. Þá standa alltaf einhverjir og talið er að um 300 til 350 manns sæki hverja tónleika.

„Það er mjög þéttsetið og það er liggur við slegist um stóla. Fólk mætir snemma til að tryggja sér inni fyrst og færir sig út þegar fjöldinn byrjar að koma," segir Brynjólfur Óli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×