Innlent

Börn fá ókeypis námsgögn í Hveragerði

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir segir íbúum fjölga hratt í Hveragerði
Aldís Hafsteinsdóttir segir íbúum fjölga hratt í Hveragerði Vísir/Pjetur Sigurðsson
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir að öll börn í Grunnskólanum í Hveragerði fái ókeypis námsgögn þegar skólastarf hefjist að loknu sumarfríi.

Að sögn Aldísar er þetta liður í því að gera Hveragerði að enn betri búsetukosti. „Við viljum mjög gjarnan að ungt fólk með börn sjái hag sínum best borgið með því að búa í Hveragerði. Við teljum okkur geta boðið mjög gott umhverfi og barnvænt,“ segir Aldís.

Námsgögn á borð við stílabækur, plastvasa, liti, teygjumöppur, strokleður og reglustikur verða ókeypis þegar börnin setjast á skólabekkinn á ný. Nú sér bæjarfélagið börnunum um námsgögnin. Tekin var ákvörðun um þetta við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 og var tillagan samþykkt af öllum bæjarfulltrúum.

Þungur róður hjá barnafjölskyldum

Aldís segir bæjarstjórnina sífellt reyna að gera betur. Að sögn Aldísar er reynt að koma til móts við fólk á öllum aldri en hún horfir sérstaklega til barnafjölskyldna því hún viti að þar geti róðurinn verið þungur. Hún segir íbúum hafa fjölgað hratt í Hveragerði á síðustu misserum og finnur hún greinilega fyrir húsnæðisskortinum á höfuðborgarsvæðinu. Margir sem séu í fasteignahugleiðingum horfi í auknum mæli til Hveragerðis.

Aldís Hafsteinsdóttir segir Hveragerði bjóða upp á gott og barnvænt umhverfi.Aldís Hafsteinsdóttir
Tekur tillit til foreldra sem vinna á höfuðborgarsvæðinu

Aðspurð segist Aldís taka fullt tillit til þeirra sem hafi atvinnu á höfuðborgarsvæðinu. Því til stuðnings segir hún að könnun hafi verið gerð á meðal Hvergerðinga á því hvenær þeir vildu helst að leikskólinn opnaði á morgnanna. Hún segir að það hafi komið í ljós að þó nokkur fjöldi Hvergerðinga vildi að leikskólinn opnaði fyrr á morgnanna. Að sögn Aldísar hafi þau breytt opnunartímanum til að íbúarnir næðu strætisvagninum til Reykjavíkur í tæka tíð fyrir vinnu.

Þá bætir bæjarstjórinn við að bærinn hafi staðið fyrir ævintýranámskeiði á sumrin fyrir börn frá 08.00-17.00 til að fólk geti sinnt vinnunni og jafnframt verið óhrædd um börnin á meðan.

„Við erum sífellt að reyna að gera betur,“ segir Aldís, bæjarstjóri í Hveragerði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×