Innlent

Hefðu átt að láta SÁÁ vita áður en áfengismeðferð var boðin út

Jón Hákon Halldórsson skrifar
SÁÁ hefur veitt heilbrigðisþjónustu fyrir áfengissjúklinga í um 40 ár. Nú hefur ríkið boðið verkefnið út í samræmi við ný lög um opinber innkaup.
SÁÁ hefur veitt heilbrigðisþjónustu fyrir áfengissjúklinga í um 40 ár. Nú hefur ríkið boðið verkefnið út í samræmi við ný lög um opinber innkaup. vísir/heiða
 „Það sem maður er mjög hugsi yfir er annars vegar framkvæmdin á þessu,“ segir Katrín Jakobsdóttir formaður VG um útboð Sjúkratrygginga á heilbrigðisþjónustu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á EES svæðinu.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að búið væri að bjóða þjónustuna út í stað þess að endurnýja þjónustusamninga við SÁÁ. Ákvörðunin var tekin á grundvelli laga um opinber innkaup sem samþykkt voru í vetur.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, hefur sagt að samtökin hafi ekki verið látin vita af því að bjóða ætti þjónustuna út. 

Katrín Jakobsdóttir formaður VG
Sjúkratryggingar hafi síðan látið þá vita óformlega, að þeir ættu að gefa auglýsingu gaum sem birt hafði verið á erlendum vef á netinu. Katrín Jakobsdóttir gagnrýnir að ráðist hafi verið í útboðið án nægjanlegs aðdraganda. Hún segir líka að ef gera eigi breytingar á jafn viðkvæmri þjónustu og heilbrigðisþjónusta við áfengissjúklinga er, þá þurfi það að byggja á faglegu mati en ekki eingöngu útboðsreglum.

„Þegar við erum að ræða um heilbrigðisþjónustu þá þurfum við að eiga umræðu um það hvaða faglega mat eigi að fara fram áður en ákvarðanir eru teknar,“ segir hún.

Katrín segir VG ekki leggjast gegn því að einkaaðilar eða frjáls félagasamtök reki heilbrigðisþjónustu, sé hún ekki rekin í hagnaðarskyni. Nefnir hún þar starfsemi SÁÁ og starfsemi Reykjalundar. Tryggja þurfi að það sé festa í starfsemi viðkomandi aðila og ekki megi vera óvissa hjá þeim sem veita þjónustuna um fjárveitingu.

Sú leið sem farin er við útboð á heilbrigðisþjónustu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga, samkvæmt nýjum lögum um opinber innkaup, er kölluð „létta leiðin“ af því að viðmiðunarmörk um útboðsskyldu eru talsvert hærri en vegna annarrar þjónustu og rýmri reglur gilda um aðferðir við útboð og val á tilboðum. Samkvæmt reglugerð þarf að bjóða út alla samninga sem eru umfram 116 milljónir króna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×