Íslenski boltinn

Ágúst: Áttum mjög góðar æfingar í Mjölni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst sá sína menn loksins vinna leik í kvöld.
Ágúst sá sína menn loksins vinna leik í kvöld. vísir/anton

Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, var að vonum kampakátur eftir sigurinn á Grindavík. Þetta var fyrsti leikur Fjölnis í rúmar þrjár vikur en hvernig nýttu Grafarvogspiltar þetta frí?

„Við hvíldum okkur vel og komum endurnærðir til baka. Þetta var svolítið eins og undirbúningstímabil. Við tókum aðeins í lóðin og mættum í Mjölni og áttum mjög góðar æfingar þar. Svo spiluðum við einn æfingaleik,“ sagði Ágúst.

„Þetta var langbesti leikur okkar í sumar. Við mættum til leiks og sýndum að við getum skorað mörk.“

Fyrir leikinn í kvöld sat Fjölnir á botni deildarinnar. Sigurinn var því gríðarlega mikilvægur.

„Sumarið er rétt að byrja, eigum við ekki að segja það? En það er frábært að fá þennan sigur og halda hreinu þótt Grindvíkingarnir hafi fengið einhver færi. Við fengum líka urmul færa,“ sagði Ágúst.

Linus Olsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Fjölni í kvöld og það tók hann aðeins tæpar tvær mínútur að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið.

„Við fengum þennan strák til okkar því ég veit hvað hann getur. Þetta var mjög góð innkoma hjá honum. Hann ýtti við öllum hópnum og menn voru tilbúnir að berjast,“ sagði Ágúst.

En ætlar hann að fá fleiri leikmenn til Fjölnis á meðan félagaskiptaglugginn er opinn?

„Eigum við ekki að fagna þessum sigri. Við vinnum ekki á hverjum degi og hvað þá svona. Við erum sáttir í dag en sjáum svo til,“ sagði Ágúst að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira