Innlent

Varað við stormi upp úr hádegi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Spáð er 10-23 metrum á sekúndu upp úr hádegi og hvassast við suðvesturströndina.
Spáð er 10-23 metrum á sekúndu upp úr hádegi og hvassast við suðvesturströndina. Vísir/Anton Brink
Búist er við stormi við suðvesturströnd landsins og á hálendinu upp úr hádegi með hvössum vindhviðum við fjöll, sem geta verið varasamar farartækjum sem taka á sig mikinn vind. Þetta kemur fram í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Einnig verður talsverð rigning suðvestanlands og mikilli rigning á Suðausturlandi og undir Eyjafjöllum síðdegis og í nótt með tilheyrandi vatnavöxtum í ám.

Veðurhorfur á landinu

Vaxandi suðaustanátt með rigningu sunnan- og vestanlands, 10-23 m/s upp úr hádegi, hvassast við suðvesturströndina. Talsverð rigning suðvestanlands en mikil á Suðausturlandi og undir Eyjafjöllum en þurrt um landið norðaustanvert. Snýst í mun hægari suðvestlæga átt með skúrum suðvestantil undir miðnætti.

Suðaustan átt á morgun, 10-15 m/s en hægari vestantil. Talsverð suðaustanlands framan af degi, rigning víða vestantil en bjartviðri norðaustantil. Hiti 10 til 25 stig, hlýjast á Norðausturlandi á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga (sjá nánari spá á veðursíðu Vísis)

Á miðvikudag:

Suðaustan 10-15 m/s um landið suðaustanvert og rigning sunnanlands, en talsvert hægari og úrkomulítið norðan- og norðvestantil. Hiti 8 til 23 stig, hlýjast norðanlands.

Á fimmtudag:

Austan og suðaustan 5-10 og rigning með köflum suðaustanlands, úrkomulítið suðvestanlands en skýjað með köflum norðantil. Hiti 10 til 25 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á föstudag:

Breytileg eða suðaustlæg átt, 3-8 m/s. Dálítil rigning með köflum sunnan- og vestanlands og hiti 10 til 15 stig en skýjað með köflum norðaustantil og allt að 23 stiga hiti í innsveitum.

Á laugardag:

Hægviðri á landinu. Skýjað að mestu norðvestantil og hiti 8 til 14 stig en annars skýjað með köflum og hiti 13 til 20 stig.

Á sunnudag:

Hægviðri, skýjað með köflum víðast hvar. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast inn til landsins.

Á mánudag:

Hægviðri. Skýjað að mestu austanlands en annars bjartviðri. Hiti 8 til 20 stig, svalast við austurströndina en hlýjast suðvestanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×