Innlent

Eldsupptökin í Reykjahlíð í reykingaaðstöðu starfsfólks

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sjö starfsmenn hótelsins bjuggu í húsinu en annar samstarfsmaður og nágranni varð eldsins var og bjargaði mannslífum að því er hótelstjórinn telur.
Sjö starfsmenn hótelsins bjuggu í húsinu en annar samstarfsmaður og nágranni varð eldsins var og bjargaði mannslífum að því er hótelstjórinn telur. pétur snæbjörnsson
Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur lokið rannsókn á eldsvoðanum í Reykjahlíð við Mývatn í dag.

Bráðabirgðaniðurstaða lögreglu bendir til þess að eldurinn hafi kviknað á palli fyrir utan húsið þar sem starfsmenn Hótel Reynihlíðar hafa aðstöðu til að reykja. Þetta staðfestir Gunnar Jóhannsson, lögreglufulltrúi í rannsóknardeild, í samtali við Vísi en fyrst var greint frá þessu á vef RÚV.

Gunnar segir að verið sé að afhenda vettvanginn en hann kveðst ekki vita hversu mikið tjón varð í brunanum. Hins vegar sé ljóst að húsið er mjög illa farið.

Sjö starfsmenn hótelsins voru í fastasvefni í húsinu þegar eldurinn kviknaði en samstarfskona þeirra sem býr í næsta húsi varð eldsins vör og gerði íbúunum viðvart.

Pétur Snæbjörnsson, hótelstjóri Hótel Reynihlíðar, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að ljóst væri að konan hefði bjargað mannslífum með því að ná að láta samstarfsfólk sitt vita af eldinum.

Enginn slasaðist eða fékk reykeitrun en Pétur sagði starfsfólkið í áfalli. Rauði krossinn brást við og hefur boðið öllu starfsfólki hótelsins sálrænan stuðning auk þess sem fjöldahjálparstöð var opnuð til að skjóta skjólshúsi yfir starfsmennina sem bjuggu í starfsmannahúsinu sem brann.

Sjálfboðaliðar frá Húsvíkurdeild auk áfallateymis frá Akureyri sinna skjólstæðingunum, segir í tilkynningu Rauða krossins. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×