Lífið

Ed Sheeran snúinn aftur á Twitter og segir fjarveruna ekki tengjast Game of Thrones

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekki voru allir sammála um ágæti gestahlutverks breska söngvarans Ed Sheeran í þætti sunnudagsins.
Ekki voru allir sammála um ágæti gestahlutverks breska söngvarans Ed Sheeran í þætti sunnudagsins. Skjáskot/Youtube
Söngvarinn Ed Sheeran hefur komið Twitter-aðgangi sínum aftur í gagnið eftir að hann gerði aðganginn óvirkan í vikunni. Talið var að Sheeran hefði hætt á Twitter vegna óvæginna ummæla aðdáenda Game of Thrones um gestahlutverk söngvarans í þáttunum en Sheeran hafnar því að Twitter-virkni sín tengist gagnrýninni.

Sheeran sagði skilið við samfélagsmiðilinn í vikunni í kjölfar þess að gestahlutverk hans í sjónvarpsþáttunum sívinsælu Game of Thrones var harðlega gagnrýnt. Hann sneri þó fljótlega aftur á Twitter en þvertók fyrir að fjarvera sín tengdist meinfýsnum athugasemdunum.

„Ég hætti á Twitter vegna þess að ég hafði alltaf ætlað mér að hætta á Twitter. Það hafði ekkert með það að gera hvað fólk sagði um gestahlutverk mitt í Game of Thrones, vegna þess að ég er í Game of Thrones, af hverju í ósköpunum myndi ég hafa áhyggjur af því hvað öðru fólki fyndist um það?“ skrifaði Sheeran í færslu á Instagram-reikningi sínum í dag.

Sheeran er þekktur fyrir að hverfa af samfélagsmiðlum og þá hefur hann tjáð sig um hatursfull ummæli sem berast honum í gegnum téða miðla. Söngvarinn hefur jafnframt sagt að honum þyki erfitt að takast á við slík ummæli og hefur ýjað að því að hann muni takmarka notkun sína á samfélagsmiðlum vegna þeirra.

Í hlutverki sínu í Game of Thrones fór Sheeran með tvær línur: „Þetta er nýtt,“ sagði hann um lag, sem persóna hans söng í viðurvist Aryu Stark í túlkun Maisie Williams, og „Versti staður í heimi,“ um King‘s Landing, höfuðborg sögusviðs þáttanna.

Hér að neðan má sjá Instagram-færslu Sheeran, þar sem hann tjáir sig um Twitter-sviptingarnar, í heild sinni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×