Íslenski boltinn

Kristján Guðmunds: Varamennirnir skiptu sköpum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kristján Guðmundsson er kominn með sína menn í undanúrslit.
Kristján Guðmundsson er kominn með sína menn í undanúrslit.
„Yndisleg tilfinning að vera komin í undanúrslit í bikarkeppninni“ voru fyrstu orð Kristjáns Guðmundssonar, þjálfara ÍBV, eftir sigur hans manna á Víkingi Reykjavík í Fossvoginum í kvöld.

Varamenn ÍBV voru allir mjög ferskir í kvöld og var sigurmarkið búið til af mönnum af bekknum. Gunnar Heiðar Þorvaldsson átti laumulega stungusendigu inná Arnór Gauta Ragnarsson sem kláraði leikinn fyrir ÍBV á 87. mínútu. „Þeir sem komu inn á völlinn, byrjuðu ekki leikinn, en komu svo inn á og skiptu verulega miklu máli og það er akkúrat það sem við þurfum á að halda,“ sagði Kristján um varamennina.

Kristján var ánægður með að leikurinn hafi ekki farið í framlengingu svo þeir næðu bátnum aftur heim til Eyja. „Þetta var hörku leikur og dómarinn tók strax góð tök á leiknum og spjaldaði menn, þannig að það varð ekkert vesen. Liðin skiptust á að vera ofan á í leiknum, en okkur tókst að stoppa í þau göt sem þeir voru að fara í gegn um okkur fyrir seinni hálfleikinn. Við náðum að nýta þetta færi en það var stutt á milli samt,“ sagði Kristján.

„Við áttum okkur alveg á því að þetta er allt önnur keppni og við gírum okkur í hvern bikarleik fyrir sig og áttum okkur að því að deildin er allt önnur. Við þurfum að sýna sömu skynsemi og þennan fína leik sem við sýndum hér í dag,“ svaraði Kristján aðspurður hvort áframhaldandi þátttaka hafi áhrif á deildina, en þar er liðið ansi nálægt fallsæti

„Við bjóðum alla velkomna til Eyja viku fyrir Þjóðhátíð og sumir mega svo verða eftir eftir leikinn,“ sagði Kristján þegar hann var spurður um óska mótherja í undanúrslitunum.

Nánari umfjöllun um leikinn má finna hér

Undanúrslit bikarkeppninnar fara fram 27. og 28. júlí og gæti ÍBV mætt þar FH, Stjörnunni eða KR, og Leikni Reykjavík eða ÍA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×