Skoðun

Einokun einkabílsins

Eva H. Baldursdóttir skrifar
Aðgerðir innan Reykjavíkur undanfarinna ára hafa miðað að því að þróa borgina þannig að hún sé betri borg hvað almenningssamgöngur varðar. Umræður um samgöngumálin hafa dregist í hægri vinstri dilka með þeim afleiðingum að sumir, einkum hægra megin, telja sig þurfa að vera í harðri vörn fyrir einkabílinn. En að vera talsmaður öflugri almenningssamgangna er ekki hægri eða vinstri né þýðir það að maður sé á móti einkabílnum, þó vissulega telji ég rétt að draga úr notkun hans.

Ferðumst meira saman

Staðreyndir málsins eru að fólksfjölgun er ör í Reykjavík og þó að allir villtustu draumar talsmanna malbiksframkvæmda myndu ganga eftir myndi það ekki draga úr umferðartöfum að neinu ráði. Tveir plús tveir verði fjórir og viti menn, lausnin er ekki að setja allt í stokka og fjölga akreinum. Ef spár um fjölgun íbúa ganga eftir verðum við að fara að ferðast meira saman ef samgöngukerfið á að ganga upp.

Markmiðið er að Reykjavík verði borg með betri almenningssamgöngur. Sú sýn felur í sér skemmtilegri borgarbrag og fer saman við markmið um þéttingu byggðar. Aðgerðum í þá áttina verður því haldið áfram. Allir sem nota almenningssamgöngur vita að þær eru ekki á pari við það sem víða gerist erlendis en þær hafa batnað. Það er betra að nota hjól hér en áður og það er betra að nota strætó.

Aukin fjölbreytni

Borgarlínan færir okkur hins vegar inn í nútímann og með henni verður til hágæðakerfi almenningssamgangna. Það þýðir að ferðatíminn í strætó getur orðið á pari við einkabílinn. Breyttar ferðavenjur eru líka betri fyrir umhverfið, efnahaginn og heilsuna. Að sama skapi ættu talsmenn einkabílsins að fagna því ef fleiri fara að nota almenningssamgöngur, það þýðir meira pláss á vegum fyrir þá. Það er ekki verið að vega mikið að einokun einkabílsins, t.d. fara nú miklir fjármunir í vegaframkvæmdir. Markmiðið er fyrst og fremst að auka fjölbreytni í samgöngum.

 

Höfundur er varaborgarfulltrúi og lögfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×