Enski boltinn

Markmannsbúningur sem á að koma sóknarmönnum andstæðinganna úr jafnvægi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Markmannsbúningurinn til vinstri fangar athyglina.
Markmannsbúningurinn til vinstri fangar athyglina. mynd/twitter-síða wycombe wanderers
Enska D-deildarliðið Wycombe Wanderers hefur frumsýnt æði sérstaka markmannsbúninga fyrir næsta tímabil.

Annar þeirra er ljósbleikur með bláum ermum. Hinn er öllu sérstæðari; gulur með alls konar litríku munstri. Hann minnir einna helst á plötuumslag með sýrurokkshljómsveit á 7. áratug síðustu aldar.

Hugsunin á bakvið markmannsbúninginn er að hann fangi athygli sóknarmanna andstæðinga Wycombe og fá þá til að skjóta í markmanninn frekar en í markið.

Markmannsþjálfari Wycombe, Barry Richardson, á heiðurinn að þessum búningi og að hans sögn sótti hann innblástur í kviksjá sem hann átti sem krakki.

Nú verður bara að koma í ljós hvort þessi sérstaka hönnun á markmannsbúningnum taki sóknarmenn D-deildarinnar úr jafnvægi og verði til þess að Wycombe fái á sig færri mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×