Umfjöllun og viðtöl: Víkingur R. - ÍBV 1-2 | ÍBV henti Víkingum úr bikarnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Eyjamenn voru í bikarstuði í dag.
Eyjamenn voru í bikarstuði í dag. vísir/eyþór
ÍBV skaut sér í undanúrslit Borgunarbikars karla í kvöld með 2-1 sigri á Víkingi Reykjavík í Fossvoginum í kvöld. Arnór Gauti Ragnarsson skoraði sigurmarkið á 87. mínútu leiksins.

Þetta var hörku leikur og var jafnt með liðunum megnið af leiknum. Það var mikið fjör strax frá fyrstu mínútum leiksins og átti Kaj Leo í Bartalsstovu marktilraun á þriðju mínútu og heimamenn í Víkingi óðu í hornspyrnum í upphafi leiks. 

Víkingsmenn komust yfir á 24. mínútu leiksins þegar Ivica Jovanovic komst einn inn fyrir vörn Eyjamanna eftir góða sendingu frá Ragnari Braga Sveinssyni. Gestirnir frá Vestmannaeyjum voru ekki lengi að jafna metin, en á 36. mínútu skoraði Alvaro Montejo eftir góðan undirbúning frá Pablo Punyed.

Það var jafnt með liðunum í leikhlé eftir stórgóðan fyrri hálfleik. Baráttan var mikil í Víkinni í kvöld og voru ófáar tæklingar sem litu dagsins ljós, en Erlendur Eiríksson dómari dæmdi þennan leik mjög vel. 



Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri, einkenndist af mikilli baráttu og bæði lið sköpuðu sér nóg af færum til þess að skora. Það stefndi hins vegar allt í framlengingu í Víkinni þegar Arnór Gauti kemst í dauðafæri eftir frábæra sendingu frá Gunnari Heiðari Þorvaldssyni og óþarfi að spyrja að leikslokum. Eyjamenn komnir yfir og á leið í undanúrslitin.

Víkingur reyndi svo af krafti að jafna leikinn enn höfðu lítinn tíma til og náðu ekki að skapa sér nein góð færi á lokamínútunum svo sigur Eyjamanna var í höfn. Þetta var fyrsti tapleikur Víkings Reykjavíkur eftir að Logi Ólafsson tók við Víkingum af Milos Milojevic.

Bæði lið hefðu getað farið af velli með verðskuldaðan sigur í kvöld. Eyjamenn sköpuðu sér þó aðeins hættulegri færi og náðu að nýta sér fleiri af sínum færum heldur en andstæðingarnir og unnu því leikinn. Eftir sigurmarkið opnaðist vörn Víkinga svo enn frekar þar sem þeir þurftu að sækja og hefðu ÍBV auðveldlega getað gert út um leikinn á lokamínútunum.

Kaj Leo var mjög góður í liði ÍBV í kvöld og var mikið í að skapa sér færi. Allir þrír varamenn Eyjamanna, Sindri Snær Magnússon, Arnór Gauti og Gunnar Heiðar komu mjög sprækir inn og voru sterkir fram á við, ásamt því að skora úrslita markið. Bakvörðurinn Felix Örn Friðriksson átti einnig mjög góðan dag og var nálægt því að skapa nokkur dauðafæri fyrir lið sitt.

Í liði Víkings var Ívar Örn Jónsson sterkur í dag bæði fram á við og í vörninni. Dofri Snorrason stóð sig einnig mjög vel ásamt því að Ivica Jovanovic og Vladimir Tufegdzic voru sterkir í sóknarlínu Víkings og hefðu getað sett fleiri mörk í dag.

Undanúrslit keppninnar fara fram 27. og 28. júlí. Þar verða Eyjamenn ásamt FH-ingum sem unnu Fylki á fimmtudagskvöldið, sigurliðinu úr leik Leiknis Reykjavíkur og ÍA sem fram fer á morgun, og annað hvort Stjarnan eða KR en staðan í þeim leik er 1-1 eftir 20 mínútna leik. 

Kristján Guðmunds: Varamennirnir skiptu sköpum

„Yndisleg tilfinning að vera komin í undanúrslit í bikarkeppninni“ voru fyrstu orð Kristjáns Guðmundssonar, þjálfara ÍBV, eftir sigurinn í kvöld. „Þeir sem komu inn á völlinn, byrjuðu ekki leikinn, en komu svo inn á og skiptu verulega miklu máli og það er akkúrat það sem við þurfum á að halda,“ bætir Kristján við. 

Kristján var ánægður með að leikurinn hafi ekki farið í framlengingu svo þeir næðu bátnum aftur heim til Eyja. „Þetta var hörku leikur og dómarinn tók strax góð tök á leiknum og spjaldaði menn, þannig að það varð ekkert vesen. Liðin skiptust á að vera ofan á í leiknum, en okkur tókst að stoppa í þau göt sem þeir voru að fara í gegn um okkur fyrir seinni hálfleikinn. Við náðum að nýta þetta færi en það var stutt á milli samt,“ sagði Kristján.

„Við bjóðum alla velkomna til Eyja viku fyrir Þjóðhátíð og sumir mega svo verða eftir eftir leikinn,“ sagði Kristján þegar hann var spurður um óska mótherja í undanúrslitunum.

Logi hefur hleypt nýju blóði í lið Víkinga.vísir/stefán
Logi Ólafs: Slakasti leikur liðsins til þessa

Það var ekki sama hljóðið í Loga Ólafssyni, þjálfara Víkings R. „Ég er náttúrulega bara vonsvikinn yfir því að hafa ekki unnið leikinn og farið áfram í þessari keppni. Þetta er skemmtileg keppni og gaman að taka þátt í henni. Við vorum ekki nógu góðir í dag og því fór sem fór,“ sagði Logi.

„Staðan var jöfn, og þetta er alltaf spurning um það hvort liðið nær að setja boltann á markið og þeir voru á undan okkur í því og við náum ekki að jafna. Það var töluverður munur á þessum leik og þeim leikjum sem við höfum spilað fram að þessu. Það var ekki sami krafturinn í okkur og sami takturinn í leiknum. Ég held það hafi verið ein af ástæðunum fyrir að við töpuðum,“ bætir Logi við. 

Arnór Gauti: Titraði af tilhlökkun á bekknum

„Maður er bara í skýjunum. Gott að koma inn á í svona leik, stál í stál, og klára hann,“ sagði varamaðurinn Arnór Gauti Ragnarsson sem skoraði sigurmarkið. „Ekkert smá ánægður með að koma inn á og skora. Var orðinn titrandi á bekknum af tilhlökkun við að koma inn á og að gera þetta svona, ég er bara í skýjunum,“ bætir hann við.

Aðspurður hvort Eyjamenn ætli sér alla leið í keppninni í ár segir Arnór Gauti: „Jú, er það ekki. Ætlum aðeins lengra en í fyrra, erfitt að segja, en við sjáum til.“ Eyjamenn komust í úrslitaleikinn á síðasta ári en töpuðu þar fyrir Valsmönnum.

„Vonandi náum við að tengja saman nokkra sigra og vonandi fer þetta að koma og við förum að bjóða stuðningsmönnunum upp á alvöru leiki,“ voru lokaorð Arnórs Gauta. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira