Innlent

Ein stærsta ferðahelgi ársins framundan: Umferð stöðugt að þyngjast á þjóðvegunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðbrandur vekur sérstaka athygli á Írskum dögum á Akranesi sem fram fara um helgina.
Guðbrandur vekur sérstaka athygli á Írskum dögum á Akranesi sem fram fara um helgina. Vísir/Andri marínó
Ein stærsta ferðahelgi ársins er nú rétt handan við hornið. Aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hvetur ökumenn til að fara varlega en hann gerir ráð fyrir að umferð þyngist nú eftir klukkan fimm. Hann segir jafnframt mikla breytingu hafa orðið á ferðavenjum Íslendinga.

„Við ætlum að umferð geti verið talsverð frá höfuðborgarsvæðinu þar sem að fyrsta helgi í júlí er ein af stærri helgum sumarsins,“ segir Guðbrandur Sigurðsson aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hann gerir ráð fyrir að umferð frá höfuðborgarsvæðinu þyngist töluvert nú eftir fimm þegar fólk lýkur vinnu.

Guðbrandur vekur sérstaka athygli á Írskum dögum á Akranesi, sem fram fara um helgina, og öðrum bæjarhátíðum víðs vegar um landið. Hann hvetur ferðalanga sem stefna á hátíðir til þess að fara varlega á þjóðvegunum en nú um helgina munu bifhjólamenn lögreglunnar sérstaklega vakta þungar umferðaræðar á Suðurlands- og Vesturlandsvegi.

Guðbrandur segir þó nokkra breytingu hafa orðið á ferðavenjum Íslendinga síðari ár en verslunarmannahelgin er hætt að skera sig úr sem stærsta ferðahelgi ársins. Umferð út á land hefur aukist jafnt og þétt aðrar helgar yfir sumartímann.

„Þetta eru allt orðnar stórar ferðahelgar, umferð er stöðugt að þyngjast á þjóðvegunum,“ segir Guðbrandur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×