Íslenski boltinn

Tvö 2002 módel skoruðu í öruggum Eyjasigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eyjakonur eru á frábærri siglingu.
Eyjakonur eru á frábærri siglingu. vísir/hanna
ÍBV vann sinn fimmta sigur í síðustu sex deildarleikjum þegar liðið lagði botnlið Hauka að velli, 3-0, á Hásteinsvelli í kvöld.

ÍBV hefur haldið hreinu í öllum þessum fimm sigurleikjum og skorað samtals 14 mörk.

Á meðan ÍBV gengur allt í haginn gengur hvorki né rekur hjá Haukum sem eru aðeins með eitt stig eftir fyrstu níu umferðirnar og sitja á botni Pepsi-deildarinnar.

Cloé Lacasse, sem skoraði fernu í 0-5 sigri á Fylki í síðustu umferð, kom Eyjakonum á bragðið á 14. mínútu. Hún fylgdi þá eftir skoti Clöru Sigurðardóttur sem Tori Ornela, markvörður Hauka, varði.

Á 28. mínútu snerist dæmið við. Cloé lék þá á Tori í markinu og renndi boltanum á Clöru sem skoraði. Þetta var fyrsta mark þessarar 15 ára stelpu í efstu deild.

Á 89. mínútu skoraði varamaðurinn Linda Björk Brynjarsdóttir svo þriðja mark ÍBV eftir sendingu Rutar Kristjánsdóttur og 3-0 sigur ÍBV staðreynd. Linda Björk er fædd árið 2002, líkt og Clara, og því má segja að grunnskólabörnin hafi látið til sín taka í leiknum í kvöld.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×