Lífið

Undur að upplifa lífið

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Þór Jakobsson veðurfræðing dreymir um að tengja sólstöðugönguna á Íslandi við sólstöðugöngur annars staðar í heiminum, því sólstöðumínútan sé samtímis um allan hnöttinn.
Þór Jakobsson veðurfræðing dreymir um að tengja sólstöðugönguna á Íslandi við sólstöðugöngur annars staðar í heiminum, því sólstöðumínútan sé samtímis um allan hnöttinn. MYND/EYÞÓR
Sumarsólstöður eru í dag. Lengsti dagur ársins. Af því tilefni ætlar Þór Jakobsson veðurfræðingur að leiða sína 33. sólstöðugöngu í Viðey, þar sem gleði verður við völd í kvöld, en líka alvara alheimsins.

Ég var í áttræðisafmæli!“ útskýrir Þór Jakobsson veðurfræðingur kátur þegar loks næst í hann. "Ég varð áttræður í fyrra, og konan mín í ár, svo að skólasystkin mín og konunnar verða nú áttræð unnvörpum og halda veislur. Ég segi líka að gamalt fólk eigi að halda upp á afmæli sín en ekki bara bjóða í jarðarförina!“ bætir Þór við og hlær, fullur lífsgleði.

Þór er einn upphafsmanna sumarsólstöðugangna sem fyrst voru farnar í Reykjavík árið 1985. Í kvöld ætlar hann að leiða sína 33. sumarsólstöðugöngu í Viðey.

„Við höfum til gamans kallað þetta meðmælagöngu með lífinu og menningunni. Okkur berst til eyrna nóg af slæmum fréttum og því á maður að taka frá tíma til að hugsa út í það góða sem gerist í lífinu, fagna því að vera til og upplifa þetta líf í stutta stund.“

Sumarsólstöðugangan fór lengst af fram í Öskjuhlíð en undanfarin sjö ár hefur hún verið farin í Viðey, í samstarfi við Reykjavíkurborg.

„Framan af reyndum við að sitja um sólstöðumínútuna sem stjörnufræðingar geta reiknað út af nákvæmni hvenær sól er stjarnfræðilega hæst á lofti. Sumarsólstöðumínútan færist alltaf til og var klukkan 04.24 í morgun. 

Þegar við verðum í göngunni í kvöld verður daginn því farið að stytta um hænufet á dag, þótt Íslendingar verði ekki varir við styttri sólargang fyrr en frá mánuði til mánaðar vegna þess hve dimmir hægt og sígandi.“

Þór á sér draum á sumarsólstöðum. „Mig hefur alltaf dreymt um að tengja sólstöðugönguna hér heima við sólstöðugöngur annars staðar í heiminum, því sólstöðumínútan er samtímis um allan hnöttinn. Áramótin færast til og eru aldrei á sama tíma á jörðinni en þarna er komin stjarnfræðilega útreiknuð mínúta sem allir geta sameinast um í þögn og von um frið, og fögnuði yfir lífinu,“ segir Þór og bendir á að sama eigi við um vetrarsólstöður.

„Þetta næst varla í minni tíð, held ég, og verður ekki að veruleika fyrr en það verður eftirsóknarverðara að vakna um miðja nótt til að vera með öllum hinum. En með nútímatækni væri hægt að hafa samband á milli sólstöðugangna á Íslandi, í Noregi, Grænlandi og Kanada, svo dæmi séu tekin.“



Þór er einn upphafsmanna sólstöðugöngu í Reykjavík og leiðir sína 33. göngu í Viðey í kvöld. MYND/EYÞÓR
Töfrastund á sólstöðum

Veðurútlit fyrir kvöldið er gott, að sögn veðurfræðingsins. Uppstytta á réttum tíma en öruggara að klæða sig eftir veðri ef blautt verður á.

„Við ætlum að ganga um austurhluta Viðeyjar og segja frá sólstöðum, sólstöðumínútunni, hátíðum og hefðum í tengslum við sólstöður. Árný Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur og kraftgöngukona, ætlar að stýra léttum æfingum og gefa heilræði um heilbrigt og innihaldsríkt líferni, og Pétur Húni Björnsson, þjóðfræðingur og söngvari, mun segja skemmtilegar og fróðlegar sögur tengdar sólstöðum. Þá staðnæmumst við í fjöruborðinu við varðeld, þar sem söngvarinn Jón Svavar Jósefsson leiðir fjöldasöng og spilar undir á harmóníku og gítar,“ upplýsir Þór, fullur tilhlökkunar, en við varðeldinn verður hægt að kaupa léttar veitingar fyrir þyrsta göngugarpa.

Gönguleiðin er hæfileg fólki á öllum aldri en mælt er með góðum skóm og skjólgóðum jakka.

„Það er indælt og gaman að koma einu sinni á sumri út í Viðey og skoða náttúru og umhverfi frá þeim sjónarhóli. Fólk hittist, kynnist, spjallar og fagnar því að vera til. Líf okkar líður hjá og aðrir taka við. Það er dýrmætt að verða þess áskynja og þarf að minna sig á það öðru hvoru hversu mikið undur það er að upplifa þetta allt,“ segir Þór og gleðst yfir því að fleiri sólstöðugöngur hafi orðið til víða um land.

„Sólarlag í kvöld er klukkan 00.04 eftir miðnætti en bjart er allan sólarhringinn á Íslandi í kringum sumarsólstöður. Íslendingar halda mikið upp á þennan árstíma og þótt sólin brenni fullhátt á lofti og fullmikið sums staðar er hún engu að síður lífgjafi og upphaf lífs hér á jörðu,“ segir Þór.

Veður fer enn hlýnandi þótt sól lækki á lofti því hafið og lofthjúpur jarðar halda áfram að hlýna eftir sumarsólstöður.

„Það er búið að vera gaman að ganga þessar sólstöðugöngur og við höfum skráð þær frá upphafi. Sólstöður er töfrastund, ekki síst ef við hugsum til sólstöðumínútunnar. Komi fólk til með að hugsa til hennar eins og það hugsar til áramótanna, þá er sólstöðumínútan fyrir mannkyn allt.“

Lífsfögnuður á oddinn

Tíu ár eru liðin síðan Þór hætti að segja veðurfréttir í sjónvarpi, en það var aukavinna meðfram starfi hans á Veðurstofu Íslands.

„Mér þótti skemmtilegt að koma að veðurfréttum sjónvarpsins og maður þurfti að passa vel upp á tímann, sem var þrjár mínútur,“ segir Þór og brosir að minningunni. „Ég dunda nú við ýmislegt en er nýhættur sem formaður Oddafélagsins sem ég átti þátt í að stofna og vakti athygli á sögustaðnum Odda á Rangárvöllum, þar sem Sæmundur fróði átti heima og Snorri Sturluson ólst upp,“ segir Þór, en nýr formaður Oddafélagsins er sveitarstjórinn Ágúst Sigurðsson.

Þá gaf Þór út bókina Lýðveldisbörnin með Örnu Björk Stefánsdóttur í fyrravetur, um endurminningar fólks sem man eftir þátttöku sinni við stofnun lýðveldisins á Þingvöllum árið 1944.

„Svo er ég að bauka í sveitinni minni, Mörk á Landi (í Landsveit, Rangárvallasýslu). Þar er veðurathugunarstöð og við hjónin með fimmtán hektara skika og skógrækt. Þaðan var amma mín og þar bjuggu formæður mínar og forfeður á 19. öld.“

Að vera orðinn áttræður líkir Þór við sólstöðurnar.

„Lífið gengur sinn gang, maður áttar sig á því og tekur því öllu sem eðlilegu. Þeim mun meira gaman hefur maður af æskunni og það er gaman að sjá til unga fólksins í sjónvarpinu. Ætli manni finnist maður ekki vera yngri en maður heldur að ömmu hafi þótt þegar hún hélt upp á áttræðisafmælið. Ég hef verið heppinn með heilsuna og líf á gamalsaldri fer mikið eftir henni. Af stúdentsárgangi mínum er nú þriðjungur dáinn og sumir eru veikir en aðrir eins og við hjónin, furðu spræk. Góð tengsl við börn og barnabörn eru mikils virði og maður reynir að njóta hvers dags þótt margt bjáti á, því miður. Í sólstöðugöngunni í kvöld á þó að gleyma öllu slíku og setja fögnuð lífsins á oddinn.“

Siglt verður frá Skarfabakka yfir í Viðey kl. 20 í kvöld og til baka ekki seinna en klukkan 23. Allir eru hjartanlega velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×