Innlent

Íbúðalánasjóður segir vanskil húsnæðislána í sögulegu lágmarki

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Íbúðalánasjóður á alls 536 eignir og stefnir sjóðurinn að því að ljúka sölu á stórum hluta eigna sinna fyrir árslok.
Íbúðalánasjóður á alls 536 eignir og stefnir sjóðurinn að því að ljúka sölu á stórum hluta eigna sinna fyrir árslok. Vísir/Anton Brink
Íbúðalánasjóður hefur eignast 23 eignir á uppboði á fyrstu fimm mánuðum ársins og búist er við því að sjóðurinn muni eignast á bilinu 50-60 eignir í ár. Vanskil húsnæðislána eru sögulegu lágmarki samkvæmt fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði og er þessi fjöldi eigna sem Íbúðalánasjóður hefur eignast fyrri hluta þessa árs til marks um það.

Árið 2010 eignaðist sjóðurinn til að mynda 832 eignir. Ástandið hefur ekki verið jafn gott í rúmlega tíu ár samkæmt tilkynningunni.

Hér má sjá yfirlit yfir fjölda eigna sem Íbúðalánasjóður hefur fengið á uppboði undanfarin ár.
Íbúðalánasjóður á alls 536 eignir og stefnir sjóðurinn að því að ljúka sölu á stórum hluta eigna sinna fyrir árslok. Fasteignasalar munu sjá um málin og verður hagstæðasta tilboðinu tekið.

Um 60% eigna Íbúðalánasjóðs eru í útleigu. Þriðjungur íbúðanna er leigður fyrri eigendum þeirra en sjóðurinn hefur heimild til að fólki sem missir íbúðir í kjölfar vanskila þær aftur tímabundið á meðan fólk leitar húsnæðis.

Tveir af hverjum þremur þeirra sem leigt hafa eignir sjóðsins hafa verið þar í þrjú ár eða meira og þeim stendur til boða að kaupa eignirnar eins og öðrum.

Þeir sem átt höfðu íbúðina áður geta hins vegar aðeins fengið lán frá sjóðnum fyrir kaupunum ef þeir eru ekki lengur á vanskilaskrá.

Uppfært 16:51

Fréttinni var breytt þar sem upphaflega mátti af henni ráða að þeir sem höfðu misst íbúðir vegna vanskila gætu aðeins keypt þær til baka með því að fá lán hjá Íbúðalánasjóði. Það rétta er að þeir einstaklingar geta aðeins fengið lán hjá sjóðnum fyrir kaupunum ef þeir eru ekki í vanskilum við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×