Innlent

Umhverfisstofnun bendir á Matvælastofnun og öfugt í svörunum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Matvælastofnun.
Matvælastofnun.
Tilefni er til að skýra hlutverk einstakra stofnana við leyfisveitingar til fiskeldisfyrirtækja. Þetta segir í skriflegu svari Umhverfisstofnunar (UST) til Fréttablaðsins. UST og Matvælastofnun benda hvor á aðra í svörum sínum.

Úrskurðarnefnd í umhverfis- og auðlindamálum felldi í fyrradag úr gildi starfsleyfi sem UST hafði gefið til sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi. Sú niðurstaða var vegna formgalla á meðferð stofnunarinnar. Fjöldi annarra leyfa er í ferli hjá stofnuninni en úrskurðurinn ætti ekki að varða ógildingu á þeim.

„Þegar hefur verið bætt úr öðrum helstu ábendingum sem fram koma í úrskurðinum í nýrri ákvörðunum stofnunarinnar varðandi málsmeðferð og ættu önnur starfsleyfi því ekki að vera í uppnámi,“ segir í svari UST. Í svari UST er einnig vikið að þætti Matvælastofnunar (MAST) og bent á að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis, það er aukin hætta á fisksjúkdómum, falli undir verksvið MAST. Í úrskurðinum var vikið að þröngri túlkun UST á hvað telst veiddur fiskur og hvað ekki og bent á að hún standist ekki.

„Ljóst er að ábending úrskurðarnefndarinnar varðandi hvaða regla gildi um fjarlægðarmörk byggir á veiðihagsmunum fremur en lífrænu álagi. Umhverfisstofnun leitaði leiðbeininga [MAST] þegar tekin var afstaða til þessa atriðis,“ segir í svari UST.

„Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi til fiskeldis og eru þau alfarið á ábyrgð hennar,“ segir í svari frá MAST. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×