Innlent

Hljóðfæri metin á milljarða koma til landsins

Sæunn Gísladóttir skrifar
Víkingur Heiðar.
Víkingur Heiðar. Vísir/GVA
Í tilefni af Reykjavik Midsummer Music hátíðinni sem fer fram í Hörpu koma átta strengjaleikarar til landsins. Að sögn Víkings Heiðars Ólafssonar, listræns stjórnanda hátíðarinnar, koma þeir frá öllum heimshornum og með hljóðfæri metin á milljarða með sér.

„Þetta eru fiðluleikarar, víóluleikarar og sellóleikarar sem eru að koma til landsins. Þetta eru með fremstu tónlistarmönnum í heimi og vegna þess að þeir eru meðal þekktustu einleikara veraldar er þetta fólk að spila á sum dýrmætustu og stórkostlegustu hljóðfæri sem til eru. Þetta eru allt hljóðfæri sem auðkýfingar eða bankar eiga og fólki er lánað því það hefur enginn hljóðfæraleikari efni á svona hljóðfærum,“ segir Víkingur.

Þetta eru meira eða minna allt Stradivarius hljóðfæri sem eiga sér langa sögu, upprunalegu Strad­ivarius hljóðfærin voru smíðuð á 17. og 18. öld. „Þau eru með tón sem maður trúir ekki að sé til fyrr en maður heyrir það, það er ótrúlegt hvaða tóna er hægt að ná út úr svona tréboxi með strengjum og boga,“ segir Víkingur.

„Maður vill eiginlega ekki tala of mikið um hvað hljóðfærin kosta því maður er bara hræddur um að það verði ráðist á hljóðfæraleikana og þeir rændir,“ segir Víkingur kíminn.

Hann bendir á að það sé skemmtilegt hvað þessi hljóðfæri eru lifandi þar sem listamenn sem njóta þeirra forréttinda að leika á þau taka þau með sér og ferðast um heiminn.

Hljóðfæraleikararnir átta sem koma fram hér á landi koma alls staðar að úr heiminum. „Einn japanskur fiðluleikari kemur með Stradivarius fiðlu sem Napoleon Bonaparte, keisari Frakklands, átti einu sinni. Svo kemur strákur frá Ungverjalandi með fyrsta þekkta Strad­ivarius sellóið," segir Víkingur.

Midsummer Music hátíðin hefst á morgun og stendur til sunnudags með tónleikum hvert kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×