Lífið

Lauflétt miðnæturmessa

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Séra Bára fer með gott og glaðlegt orð. Annað kvöld verður hún með gítarinn með sér.
Séra Bára fer með gott og glaðlegt orð. Annað kvöld verður hún með gítarinn með sér.
Við verðum með lauf­létta miðnæturmessu sem hefst klukkan hálf tólf annað kvöld. Það er árviss hefð á sólstöðuhátíð í Garðinum,“ segir séra Bára Friðriksdóttir prestur á Útskálum

Hún segir einstaka stemningu skapast þegar messan sé á þessum tíma. Sjálf hefur hún stjórnað tveimur slíkum síðan hún tók við embættinu, spilað á gítar og leitt almennan söng.

„Alltaf er eitthvað töfrandi við Jónsmessunótt og það finn ég jafnan á gestum,“ segir hún og upplýsir að í söngskránni séu bæði sálmar og sumarljóð, meira að segja fótboltalag. „Ég vona að það verði tekið vel undir. Hugsanlega verður líka leyninúmer,“ segir hún dularfull.

Bára telur umhverfi Útskálakirkju einstakt. Lítil, falleg tjörn niður við sjóinn og yndisleg náttúra allt um kring, þannig að fuglasöngur og önnur náttúruhljóð blandist söngnum í kirkjunni. „Svo er útsýni óviðjafnanlegt til ­Snæfellsjökuls þegar vel viðrar og við viljum meina að sólsetrið sé hvergi fegurra,“ bætir hún við.

Aðspurð segist Bára ekki eiga von á að gestir taki til við að velta sér upp úr dögginni að lokinni messu á Jónsmessunótt. Þó sé ekki útilokað að slíkt gerist en hún ætli ekki að taka ábyrgð á þeirri athöfn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×