Innlent

Ákærður fyrir tilraun til manndráps í Gerðunum á gamlárskvöld

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sá sem fyrir árásinni varð krefst tíu milljóna króna í miskabætur vegna árásarinnar.
Sá sem fyrir árásinni varð krefst tíu milljóna króna í miskabætur vegna árásarinnar. Vísir/Getty
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur 27 ára karlmanni fyrir tilraun til manndráps í kjallaraíbúð í Gerðunum í Reykjavík aðfaranótt 1. janúar síðastliðins. Til vara er ákært fyrir stórfellda líkamsárás. 

Manninum er gefið að sök að hafa slegið 46 ára karlmann ítrekað í höfuðið og líkama með klaufhamri. Maðurinn hlaut lífshættulega áverka í andliti og á höfði, djúpa skurði í kringum auga og á höfuðleðri, stórt innkýlt brot hægra megin ofarlega og aftarlega á höfuðkúpu.

Þá hlaut hann minna innkýlt brot hægra megin ofarlega og framarlega á höfuðkúpu, innkýlt brot utarlega ofan við vinstra auga og mar og lítilsháttar blæðingar í heilavef. Auk þess fékk hann innkýlt brot á vinstra kinnbeini, brot á nefbeini, brot í vinstri kinnholu og brot á veggjum augntóftar auk þess sem augasteinn á vinstra auga var tilfærður.

Maðurinn brotnaði á miðhandarbeinum beggja handa og fékk mar á vinstra viðbeini. Af árásinni leiddi jafnframt að maðurinn greindist með flog og líkur eru taldar á varanlegum sjónskaða.

Sá sem fyrir árásinni varð krefst miskabóta upp á tíu milljónir króna en málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Árásarmaðurinn er í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×