Fótbolti

Danmörk vann Tékkland á Evrópumóti U-21 árs | Úrslit kvöldsins

Elías Orri Njarðarson skrifar
Kenneth Zohore setti tvö mörk í kvöld.
Kenneth Zohore setti tvö mörk í kvöld. visir/getty
Tveimur leikjum er nú lokið í C-riðli á Evrópumóti U-21 árs sem fer fram í Póllandi.

Tékkland og Danmörk mættust í hörkuleik, á Stadion Miejski í Tychy, sem endaði 2-4, Danmörku í vil.

Danir vermdu botnsæti riðilsins eftir að hafa tapað báðum leikjum sínum gegn sterkum liðum Þjóðverja og Ítala en Tékkar sátu í öðru sæti riðilsins með 3 stig eftir að hafa sigrað Ítalíu 3-1 í seinustu umferð.

Lucas Andersen, leikmaður Grasshopper í Sviss, kom Danmörku yfir á 23. mínútu leiksins en Tékkar jöfnuðu metin þegar Patrik Schick, leikmaður Juventus á Ítalíu, skoraði rúmlega fjórum mínútum seinna, 1-1.

Kenneth Zohore, liðfélagi Arons Einars Gunnarssonar hjá Cardiff City, kom Dönum aftur yfir í leiknum 1-2. Þannig var staðan þegar að fyrri hálfleik lauk.

Á 54. mínútur jafnaði Tomas Chory, leikmaður SK Sigma Olomuc í Tékklandi leikinn aftur í 2-2, en Kenneth Zohore var svo aftur á ferðinni þegar að hann kom Dönum yfir í þriðja skiptið í leiknum 2-3.

Magnus Ingvartsen, leikmaður FC Nordsjælland, kláraði svo dæmið fyrir Danmörku þegar að hann gulltryggði 2-4 sigur á 90. mínútu.

Ítalía og Þýskaland mættust svo í hinum leiknum í riðlinum á Marshal Jozef Pilsudski-leikvangnum í Kraká og leikurinn endaði með 1-0 sigri Ítalíu.

Þjóðverjar voru í fyrsta sæti í riðlinum fyrir leikinn með 6 stig en Ítalir sátu í því þriðja með 3 stig.

Federico Bernardeschi, leikmaður Fiorentina á Ítalíu, kom Ítölum yfir á 31. mínútu leiksins og þar við sat. 1-0 sigur Ítala raunin og þeir sem koma sér yfir Tékka í annað sæti í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×