Innlent

Um átta hundruð gætu átt rétt á endurgreiðslu atvinnuleysisbóta

Atli Ísleifsson skrifar
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að fjöldi þeirra sem haft sé samband við sé um átta hundruð manns.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að fjöldi þeirra sem haft sé samband við sé um átta hundruð manns. Vísir/Vilhelm
Vinnumálastofnun hefur hafið vinnu við að hafa samband við einstaklinga sem gætu hugsanlega átt rétt á atvinnuleysisbótum í kjölfar dóms Hæstaréttar um styttingu á bótatímabili atvinnuleysisbóta úr 36 í þrjátíu mánuði.

Í dómnum kemur fram að Alþingi hafi verið óheimilt að skerða bótarétt þeirra sem þegar höfðu virkjað rétt sinn til atvinnuleysisbóta fyrir 1. janúar 2015 og eigi þeir samkvæmt niðurstöðu dómsins rétt á 36 mánaða bótatímabili. Dómurinn hafi hins vegar ekki áhrif á þá sem fengu fyrst greiddar atvinnuleysisbætur eftir 1. janúar 2015.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir í samtali við mbl að fjöldi þeirra sem haft sé samband við sé um átta hundruð manns.

Einstaklingar þurfi ekki að bíða um of eftir niðurstöðu

Í tilkynningu frá Vinnumálastofnun segir að stofnunin hafi þegar leiðrétt bótatímabil þeirra einstaklinga sem séu atvinnulausir og séu að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta frá stofnuninni í dag. Séu þetta um 1.200 einstaklingar.

VinnumálastofnunVísir/hanna
„Vinnumálastofnun mun nú á næstu vikum setja sig í samband við alla þá sem fullnýttu 30 mánuði af bótatímabili sínu eftir 1. janúar 2015 og fram til 1. júní 2017 í því skyni að leiðbeina þeim um hugsanlegan rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Stofnunin mun hafa samband við þá einstaklinga sem kunna að eiga slíkan rétt eftir því hvenær viðkomandi fullnýtti 30 mánaða bótarétt sinn. Er það gert til að dreifa álagi hjá stofnuninni og einnig til að einstaklingar þurfi ekki að bíða um of eftir því að fá niðurstöðu vegna beiðni sinnar.

Vinnumálastofnun hefur nú þegar hafið vinnu við að hafa samband við alla þá sem fullnýttu bótatímabil sitt frá apríl til júní 2017. Í þessari viku verður haft samband við þá sem fullnýttu bótatímabil sitt á tímabilinu janúar til mars 2017. Í kjölfar þess mun stofnunin hafa samband við þá sem fullnýttu bótatímabil sitt á tímabilinu janúar til apríl 2015 o.s.frv. þar til að stofnunin hefur haft samband við alla þá sem fullnýtt hafa bótatímabil sitt eftir 1. janúar 2015. Er það markmið Vinnumálastofnunar að búið verði að hafa samband við alla fyrir lok septembermánaðar. Enn fremur er það markmið Vinnumálastofnunar að hafa lokið greiðslu atvinnuleysisbóta til allra þeirra sem eiga rétt til þess á grundvelli dóms Hæstaréttar eigi síðar en í byrjun nóvember nk.,“ segir í tilkynningunni.

Nánar má lesa um málið á vef Vinnumálastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×