Körfubolti

Framfarakóngur NBA-deildarinnar mætir Íslandi 31. ágúst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hinn 2,11 metra hái Giannis Antetokounmpo hefur blómstrað eftir að hann var gerður að leikstjórnanda.
Hinn 2,11 metra hái Giannis Antetokounmpo hefur blómstrað eftir að hann var gerður að leikstjórnanda. vísir/getty
Tveir leikmenn Milwaukee Bucks fóru heim með verðlaun af verðlaunahátíð NBA-deildarinnar sem var haldin í gær.

Malcolm Brogdon var valinn nýliði ársins og Giannis Antetokounmpo framfarakóngur ársins.

Sá síðarnefndi er grískur landsliðsmaður og verður í eldlínunni þegar Ísland og Grikkland mætast á EM í körfubolta í Helsinki 31. ágúst næstkomandi.

Antetokounmpo blómstraði á síðasta tímabili eftir að Jason Kidd, þjálfari Milwaukee, færði hann í stöðu leikstjórnanda.

Hinn 2,11 metra hái Antetokounmpo hækkaði sig í öllum tölfræðiþáttum frá árinu á undan og bætti auk þess skotnýtinguna sína.

Gríska undrið var með 22,9 stig að meðaltali í leik, 8,8 fráköst, 5,4 stoðsendingar, 1,9 varin skot og 1,6 stolna bolta á síðasta tímabili.

Á þarsíðasta tímabili var Antetokounmpo með 16,9 stig, 7,7 fráköst, 4,3 stoðsendingar, 1,4 varin skot og 1,2 stolna bolta í leik. Hann bætti sig því umtalsvert á milli ára.

Russell Westbrook var valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins (MVP) en hann náði þeim einstaka árangri að vera með þrefalda tvennu að meðaltali í leik.

Draymond Green, leikmaður meistara Golden State Warriors, var valinn besti varnarmaðurinn.

Mike D'Antoni, þjálfari Houston Rockets, var valinn þjálfari ársins og lærisveinn hans, Eric Gordon, besti sjötti leikmaðurinn.

NBA

Tengdar fréttir

Westbrook hreppti hnossið

Russell Westbrook var útnefndur verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×