Viðskipti innlent

Sigurður Hannesson hættur hjá Kviku banka

Hörður Ægisson skrifar
Sigurður var meðal annars einn helsti ráðgjafi síðustu ríkisstjórnar í vinnu við áætlun um losun fjármagnshafta sem var kynnt sumarið 2015.
Sigurður var meðal annars einn helsti ráðgjafi síðustu ríkisstjórnar í vinnu við áætlun um losun fjármagnshafta sem var kynnt sumarið 2015.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka, hefur sagt starfi sínu lausu og mun láta af störfum hjá fjárfestingabankanum í ágúst, samkvæmt heimildum Vísis. 

Sigurður hefur starfað hjá Kviku og forverum bankans í tíu ár. Hann hóf störf í markaðsviðskiptum hjá Straumi fjárfestingabanka árið 2007 og var ráðinn framkvæmdastjóri Júpíter 2010. Í janúar 2013 tók hann við starfi framkvæmdastjóra eignastýringar.

Sigurður var meðal annars einn helsti ráðgjafi síðustu ríkisstjórnar í vinnu við áætlun um losun fjármagnshafta sem var kynnt sumarið 2015.

Þann 27. apríl síðastliðinn var greint frá því að Sigurður Atli Jónsson hefði ákveðið að láta af störfum hjá bankanum. Síðar sama dag upplýsti Vísir að Ármann Þorvaldsson, þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Virðingar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Kaupþings Singer & Friedlander í Bretlandi, myndi taka við af Sigurði Atla. Það var síðan staðfest með tilkynningu Kviku viku síðar en Ármann tók formlega við störfum sem forstjóri bankans 15 .júní.

Samhliða því að gengið var frá ráðningu Ármanns var Marinó Örn Tryggvason, sem hafði starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri eignastýringar Arion banka frá árinu 2014, einnig ráðinn til Kviku, sem aðstoðarforstjóri bankans. Marinó mun taka til starfa hjá fjárfestingabankanum 1. ágúst næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×