Innlent

Kaþólska kirkjan svarar engu um uppruna gjafafjár

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Landakotskirkja er þekktasta kirkja kaþólsku kirkjunnar.
Landakotskirkja er þekktasta kirkja kaþólsku kirkjunnar. Vísir/Vilhelm
Upplýsingar um þá sem styrkja Kaþólsku kirkjuna á Íslandi fást ekki uppgefnar. Þetta segir í svari kirkjunnar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Á dögunum var ný kirkja kaþólikka vígð í Reyðarfirði. Kirkjan er úr tré og var viðurinn frá Slóvakíu. Robert Fico, forsætisráðherra Slóv­akíu, og tveir aðrir ráðherrar voru viðstaddir athöfn þegar kirkjan var vígð. Biskup kaþólsku kirkjunnar hér á landi, David Tencer, er Slóvaki.

Þá fyrirhugar Maríukirkjan á Selfossi að byggja hús í bænum. Á Facebook-síðu safnaðarins má sjá að rúmlega 43 milljónir króna hafa safnast til byggingarinnar og að söfnuðurinn fékk „mjög stóra gjöf“ fyrir viku.

Það vakti mikla athygli fyrir tveimur árum þegar sagt var frá því að Sádar hygðust styrkja byggingu mosku hér á landi. Í tengslum við þetta beindi Fréttablaðið fyrirspurn til Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi um hve mikið fé hún hefði fengið að gjöf að utan það sem af er áratugnum. Einnig var spurt hve stór hluti þess væri eyrnamerktur til byggingu kirkna.

„Kaþólska kirkjan sér sjálf um fjáröflun. Nöfn þeirra aðila, sem styrkja verkefni Reykjavíkurbiskupsdæmis, verða ekki birt, nema sé ósk þeirra. Upplýsingar um fjáröflun verða gefnar eingöngu þeim, sem málið varðar,“ segir í svari sr. Jakobs Rolland við fyrirspurninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×