Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Vorum allt of flatir

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. vísir/eyþór
„Við vorum bara ekki nógu beittir sóknarlega, við náum að skora mark eftir fast leikatriði en við fengum urmul fastra leikatriða sem við náðum ekki að nýta okkur í dag,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, aðspurður hvað hefði farið úrskeiðis í kvöld.

„Við vorum allt of flatir, sérstaklega eftir að Guðjón fer útaf, það var veikleiki okkar í dag. Víkingarnir ná að skora þessi tvö mörk og það er það sem skilur liðin að í dag. Þeir voru þrælöflugir í dag.“

Dómarinn þurfti oft að stöðva leikinn vegna meiðsla og stöðvaði það svolítið flæðið í leiknum.

„Þetta var mikill baráttuleikur, mér fannst ekkert ganga allt of vel hjá dómurunum í dag. Þeir voru með fókusinn svolítið mikið á bekknum og hvað gekk á þar, það mátti ekki segja orð og þá varð allt vitlaust. Þeir áttu ekki sinn besta dag en við töpuðum ekki leiknum út af dómurunum í dag,“ sagði Rúnar.

„Þetta er núna úr sögunni, við þurfum að koma okkur aftur niður á jörðina og gleyma þessum leik og mæta af krafti í næsta leik. Jújú, ætli það sé ekki hægt að finna eitthvað jákvætt þrátt fyrir tapið,“ sagði Rúnar að lokum aðspurður hvort það væri hægt að taka eitthvað jákvætt úr leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×