Íslenski boltinn

Hjörtur setti of heiðarlegan Kale á grillið: „Ég er ekki að biðja hann um að ljúga“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ingvar Þór Kale, markvörður ÍA, var maður leiksins þegar Skagamenn héldu í fyrsta skipti hreinu á tímabilinu er liðið gerði markalaust jafntefli við KA í fyrradag.

KA-menn skoruðu þó mark í leiknum sem var dæmt af vegna brots á Ingvari en um kolrangan dóm var að ræða hjá Þóroddi Hjaltalín, dómara leiksins. Ingvar Þór viðurkenndi mistök dómarans í viðtali eftir leik.

„Nei, þetta var ekki brot. Ég var reyndar tveimur mínútum áður búinn að fá olnboga í mig og þá var ekkert dæmt en þetta var ekki brot,“ sagði Ingvar Þór.

Hjörtur Hjartarson leysti af í Pepsi-mörkunum í gærkvöldi og var vægast sagt ósáttur með þennan óþarfa heiðarleika markvarðarins.

„Það má eflaust snúa út úr því sem ég ætla að segja núna en í alvörunni, Kale, segðu frekar bara ekkert,“ sagði Hjörtur.

„Ég er ekki að biðja hann um að ljúga eða neitt en af hverju er hann að segja þetta? Mörgum finnst fínt að hann viðurkenni þetta og auðvitað er það fínt en hvað gerist næst þegar hann fer upp í bolta og það er farið utan í hann?“

„Maður veit aldrei hvað fer inn í hausinn á dómurunum. Ég er ekki að biðja hann um að ljúga og í Guðanna bænum ekki snúa út úr orðum mínum á Twitter. Ég er bara að segja: Vertu aðeins klókari. Segðu bara að dómarinn dæmdi ekki neitt og þannig er það,“ sagði Hjörtur Hjartarson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×