Innlent

Sextíu milljóna króna styrkur vegna vatnsleka

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Víkingar urðu fyrir miklu tjóni í vor.
Víkingar urðu fyrir miklu tjóni í vor. Vísir/Ernir
Borgarráð samþykkti á fimmtudag tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að veita íþróttafélaginu Víkingi sextíu milljóna króna styrk til að gera við kjallara í húsnæði félagsins í Fossvogi eftir verulegt vatnstjón sem varð þar vor.

Í greinargerð sem fylgir tillögu borgarstjóra kemur fram að tjónið, sem varð þegar yfirborðsvatn flæddi inn í kjallara hússins, sé þess eðlis að ekki sé hægt að kaupa tryggingar fyrir því. Ljóst sé að félagið hafi ekki fjárhagslega burði til að standa undir endurbótum á húsinu.

Auk þess var samþykkt að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar að endurskoða fjárfestingaáætlun borgarinnar vegna starfsemi Víkings.

Samkvæmt áætluninni skal fimmtíu milljónum króna varið í endurbætur á grasæfingasvæði félagsins í ár, en samkomulag hefur náðst á milli borgarinnar og félagsins um að endurskoða þau áform. Í stað þess að stækka grasæfingasvæði félagsins verða tennisvellirnir í Víkinni lagaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×