Sport

Fyrrverandi UFC-bardagakappi lést eftir boxbardaga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tim Hague lifði í tvo daga eftir síðasta bardagann sinn.
Tim Hague lifði í tvo daga eftir síðasta bardagann sinn. mynd/skjáskot
Tim Hague, fyrrverandi MMA-bardagakappi sem keppti í UFC, er látinn eftir að vera rotaður í hnefaleikabardaga á föstudagskvöldið. Hann lést á sjúkrahúsi í gær vegna höfuðhöggs sem hann hlaut í bardaganum.

Hague skipti úr MMA í hnefaleika fyrir sex árum síðan eftir tveggja ára feril innan UFC. Maðurinn sem rotaði hann heitir Adam Braidwood en hann er fyrrverandi ruðningskappi sem spilaði í Kanada.

Braidwood lét höggin dynja á Hague í annarri lotu og það síðasta varð til þess að Hague steinrotaðist. Hann náði að standa upp á endanum og var færður á sjúkrahús. Þar fór hann í dá áður en hann andaðist svo í gær.

Þetta skelfilega atvik kemur upp aðeins tveimur mánuðum áður en MMA-bardagakappinn og UFC-ofurstjarnan Conor McGregor stígur inn í hnefaleikahringinn á móti Floyd Mayweather Jr. en sviplegt fráfall Hague á vafalítið eftir að hafa áhrif á umræðuna fyrir þann bardaga.

Tim Hague var 33 ára gamall þegar hann lést.

Hér að neðan má sjá myndband af síðustu sekúndum Hague í hringnum og höggið sem fellir hann til jarðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×