Lífið

Styrkja konur til menntunar

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Birgitta Ásgrímsdóttir eigandi verslunarinnar Berlínar stendur fyrir hjólaviðburði til styrktar Menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar.
Birgitta Ásgrímsdóttir eigandi verslunarinnar Berlínar stendur fyrir hjólaviðburði til styrktar Menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar. Eyþór

Birgitta Ásgrímsdóttir stendur fyrir viðburðinum Hjólum bæinn rauðan á fimmtudagskvöld til styrktar Menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar.

Hugmyndin er að safna saman hópi kvenna, klæddum í eitthvað rautt og hjóla saman um miðbæinn á fallegu sumarkvöldi, sýna sig og sjá aðra og í leiðinni styrkja konur til menntunar,“ útskýrir Birgitta Ásgrímsdóttir en hún blæs til viðburðarins Hjólum bæinn rauðan til styrktar Menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar.

Hjólatúrinn fer fram fimmtudaginn 22. júní og mæta þátttakendur á eigin hjólum fyrir framan Hörpu klukkan 20. Kaupa þarf miða á viðburðinn á midi.is og rennur ágóði miðasölunnar allur til sjóðsins. Við Hörpu fá þátttakendur afhent númer en dregið verður um veglega vinninga úr potti síðar um kvöldið.

„Þegar keyptur er miði eru í boði þrjú verð, 1.500 krónur, 2.000 og 2.500. Hærra verði fylgja fleiri miðar í happdrættispottinn,“ útskýrir Birgitta og segir fulla þörf á að styðja við sjóðinn.

„Mæðrastyrksnefnd heldur utan um Menntunarsjóðinn en hann er þó rekinn á sér kennitölu. Starfskonur Mæðrastyrksnefndar eru í stöðugri leit að fjármagni í sjóðinn og auðvitað er sjálfsagt að styrkja sjóðinn beint. Á hverju ári styrkir sjóðurinn efnalitlar konur til menntunar. Þær sem sækja um í þennan sjóð eru sumar í þeim sporum að vera að koma sér aftur út í lífið og aðrar búa við veikt bakland. Það geta verið alls konar ástæður fyrir því að þær hafa ekki möguleika á að koma sér af stað í nám, nema með hjálp. Þá getur þetta verið sú hjálp sem þarf,“ segir Birgitta.

Hún leggur áherslu á að viðburðurinn sé ekki keppni. Tilgangurinn sé einnig að hafa gaman.
„Það verður engin keppni eða hraði og læti. Hópurinn leggur af stað frá Hörpu í þægilegan reiðhjólatúr um miðbæinn. Það verður eitt hressingarstopp á leiðinni þar sem Vífilfell ætlar að bjóða upp á létta hressingu. Svo verður haldið áfram og endar túrinn niðri á Kaffi Slipp. Þar verður boðið upp á veitingar á „happy hour“ verði. Edda Björgvins leikkona mætir til þess að draga vinningshafa úr pottinum og eru vinningarnir hinir glæsilegustu, svo sem út að borða, heill dagur í spa, snyrtivörupakkar og ýmislegt fleira.

Ég hvet allar konur til að mæta og um að gera fyrir vinkvennahópa, sauma- og frænkuklúbba að mæta, styrkja tengslin og gera eitthvað skemmtilegt saman. Svo verður hægt að færa sig yfir á Kaffi Marina seinna um kvöldið, þær sem vilja.“

Hugmyndina fékk Birgitta í MBA-námi sínu og segir verkefnið tengjast því að gefa eitthvað áfram út í samfélagið.
„Þar sem ég rek reiðhjólaverslunina Berlín ásamt manninum mínum fannst mér tilvalið að sameina þetta tvennt og búa til þennan viðburð,“ segir Birgitta.

Nánar má kynna sér viðburðinn á Facebook, Hjólum bæinn rauðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira