Lífið

Þrjár tegundir fíkniefna fundust í blóði Carrie Fisher

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Carrie Fisher öðlaðist heimsfrægð sem Lilja prinsessa í Stjörnustríði.
Carrie Fisher öðlaðist heimsfrægð sem Lilja prinsessa í Stjörnustríði. Vísir/EPA
Þrjár tegundir fíkniefna fundust í blóði leikkonunnar Carrie Fisher við krufningu eftir andlát hennar í desember síðastliðnum. Um var að ræða efnin kókaín, heróín og MDMA.

Ekki er vitað hvenær Fisher hefur innbyrt efnin. Samkvæmt frétt á vef BBC gætu allt að þrír dagar hafa liðið frá því að hún tók efnin og þangað til hún fékk hjartaáfall um borð í flugvél þann 23. desember árið 2016 sem leiddi til dauða hennar fjórum dögum seinna.

Þá er ekki vitað hvort fíkniefnin hafi haft bein áhrif á dauða leikkonunnar ástsælu. Dánardómstjóri í Los Angeles sagði um helgina að hún hafi látist af völdum kæfisvefns og annarra þátta. Í fyrstu var sagt að banamein hennar hafi verið hjartaáfall. Dánardómstjóri hefur hins vegar sagt að nákvæm dánarorsök sé óþekkt.

Fisher var einna frægust fyrir að túlka persónu Lilju prinsessu í Stjörnustríðsmyndunum. Hún verður meðal annars í áttundu myndinni í sagnabálkinum sem frumsýnd verður í desember.


Tengdar fréttir

Carrie Fisher á gjörgæslu eftir hjartaáfallið

Leikkonan Carrie Fisher, sem er þekktust fyrir að hafa farið með hlutverk prinsessunnar Leiu í Stjörnustríðsmyndunum, er á gjörgæslu eftir að hafa fengið alvarlegt hjartaáfall þegar hún var á leið til Los Angeles með flugi frá London í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×