Innlent

Launamunur kynjanna óþolandi misrétti frá upphafi Íslandsbyggðar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu.
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. Vísir/Valli
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, segir enn mikið verk að vinna í jafnréttismálum hér á landi. Hún segir launamun kynjanna óþolandi misrétti. Rætt var við Kristínu í þættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag, en haldið var upp á kvenréttindadaginn um allt land í tilefni þess að 102 ár eru frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt.

„Það er ennþá mikið verk að vinna þó að við höfum nú náð mörgum áföngum hér á landi miðað við aðrar þjóðir. Það er launamisréttið, það er ef við skoðum stjórnir fyrirtækja í landinu og forystu í atvinnulífinu, forystu í verkalýðshreyfingunni, forystan í stjórn fjármálafyrirtækja, þar eru karlar allsráðandi,“ segir Kristín.

„Við getum talað um kynskiptan vinnumarkað og ábyrgð á heimili og börnum þar er enn heilmikið verk að vinna. Því miður þá upplifum við töluvert bakslag í sambandi við fæðingarorlofið í hruninu og við þurfum að grípa til aðgerða til að ná því upp aftur því þetta er náttúrulega gríðarlega mikilvægt. Svo er það ofbeldismálin og það er menningarlífið og það er svo víða sem við erum að glíma við þetta karllæga samfélag sem hefur ríkt í 1200 ár eða hvað það er, enn lengur ef horft er til Evrópu.“

Kristín var einnig spurð um jafnlaunavottun, mikilvægi hennar og hvers vegna svo erfiðlega hafi gengið að ná málinu í gegnum Alþingi, en frumvarp um jafnlaunavottun var samþykkt nú í vor eftir miklar umræður. Kristín segir jafnlaunavottun vera flókið fyrirbæri.

„Þarna er í fyrsta skipti verið að reyna að beita staðli, að fyrirtæki beiti staðli til að koma á launajafnrétti innan hvers fyrirtækis og hverrar stofnunar. Til þess að fá þessa vottun þarf að uppfylla ótal skilyrði, þar á meðal þarf að fara fram launagreining í fyrirtækinu, það þarf að móta launastefnu og það þarf að vera gild jafnréttisáætlun. Bara svo maður taki það sem snýr að launamálunum. Síðan eru mörg skilyrði sem fyrirtækin þurfa að uppfylla og það er ákveðinn ágreiningur um það hvort það sé rétt að lögleiða staðal með þessum hætti,“ segir Kristín.

„En mér finnst mikilvægt að halda því til haga að þarna er verið að gera tilraun í fyrsta sinn svo vitað sé í heiminum, að beita svona staðli. Þetta er búið að vera óþolandi misrétti frá upphafi Íslandsbyggðar sem hefur gengið afskaplega erfiðlega að ná tökum á, þó að launabilið hafi verið smátt og smátt að minnka.“

Spennandi að vera á undan í heiminum

Hún bendir á að jafnlaunastaðallinn sé fyrst og fremst til að skoða það hvort fólk fái sömu laun fyrir sömu vinnu og jafnverðmæt störf.

„Það er svo spennandi að ganga hérna á undan í heiminum og gera svona tilraun. Ég held að þetta eigi eftir að hafa mjög góð áhrif innan fyrirtækja og stofnana að fara saman í gegnum þessi mál, leggja í það vinnu að skoða hvað er verið að gera, skoða vinnumóralinn og ímynd fyrirtækja. Ég er viss um að það verður svo margt sem kemur upp í kringum þessa vinnu sem verður vinnumarkaðnum til góðs.“

Þá segir Kristín mikilvægt að karlar séu duglegir að skoða sína stöðu innan samfélagsins ef þeim finnst á þá hallað.

„Það hefur verið töluverð umræða um feðrahlutverkið en síðan er margt í sambandi við líðan drengja og karla, við sjáum að það er miklu hærri sjálfsvígstíðni hjá körlum, þeir stunda miklu frekar áhættuhegðun en konur og margir í glímu við karlmennskuhugmyndir. Þannig að mér finnst vera ástæða fyrir karla að ræða sín mál og hvers konar samfélag vilja þeir, hvers konar stöðu vilja þeir? Við höfum rannsóknir sem sýna það að til dæmis fæðingarorlofið, það að karlar taki fæðingarorlof, það hafi fært þeim meiri lífshamingju, meiri gleði í lífið og meiri tilgang og svona breytt hugsunarhætti margra karla.“

Viðtalið við Kristínu má heyra í heild sinni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×