Íslenski boltinn

Ekki gott að mæta Stjörnunni þegar þú hefur unnið tvo bikarmeistaratitla í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Laxdal.
Jóhann Laxdal. Vísir/Eyþór
Stjarnan endaði í gær ellefu leikja sigurgöngu Valsmanna í Borgunarbikarkeppni karla í fótbolta þegar Stjörnumenn sóttu sigur á Hlíðarenda í sextán liða úrslitum keppninnar.

Valsliðið var búið að vinna bikarinn undanfarin tvö ár og alls ellefu bikarleiki í röð en nú var komið að endastöð.

Þetta var næstlengsta sigurganga í bikarnum á síðustu tíu árum en svo skemmtilega vill til að Stjörnuliðið endaði einnig þá lengstu.

KR-ingar unnu tvo bikarmeistaratitla í röð frá 2011 til 2012 og alls þrettán bikarleiki í röð frá 2011 til 2013 eða þar til að kom að leik á móti Stjörnunni í undanúrslitunum 2013. Stjarnan vann þá 2-1 sigur eins og í gær en reyndar eftir framlengdan leik.

Garðar Jóhannsson skoraði sigurmark Stjörnunnar á móti KR 1. ágúst 2013 en í gær var það Jóhann Laxdal sem skoraði sigurmarkið á 69. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar.

Fjórir af þeim leikmönnum Stjörnunnar sem tóku þátt í þessum sigri leika einmitt með KR í dag en það eru þeir Michael Præst, Robert Johann Sandnes, Kennie Knak Chopart og Garðar Jóhannsson.

Aðeins Jóhann Laxdal og bróðir hans Daníel Laxdal spiluðu báða þessa leiki. Daníel fór reyndar meiddur af velli í leiknum í gær.

Baldur Sigurðsson, sem skoraði fyrra mark Stjörnunnar í gær, lék með KR-liðinu í tapinu á móti Stjörnunni 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×