Íslenski boltinn

Fjögur systrapör í kvennaliði Vals

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjögur systrapör í val. Talið frá vinstri: Margrét Lára, Elísa, Hrafnhildur, Hlíf, Nína, Katrín, Hlín og Málfríður Anna.
Fjögur systrapör í val. Talið frá vinstri: Margrét Lára, Elísa, Hrafnhildur, Hlíf, Nína, Katrín, Hlín og Málfríður Anna. Mynd/Eva Björk
Sannkölluð fjölskyldustemmning er á æfingum meistaraflokks kvenna hjá Val í sumar því í meistaraflokknum eru nú fjögur systrapör.

Það þekkja flestir landsliðsysturnar Margrét Láru og Elísu Viðarsdóttur en það eru fleiri systir í Valsliðinu.

Málfríður Anna og Hlín Eiríksdætur eru báðar komnar upp úr unglingastarfi Vals og sömu sögu er að segja af þeim Katrínu og Nínu Kolbrúnu Gylfadætrum.

Fjórða systraparið eru síðan þær Hrafnhildur og Hlíf Hauksdætur. Hrafnhildur kom til Vals frá Selfossi  fyrir þetta tímabil en Hlíf hefur spilað með Valsliðinu með hléum undanfarin áratug.

Íþróttaljósmyndarinn Eva Björk Ægisdóttir tók mynd af öllum systrunum saman og vakti athygli á þessu á samfélagsmiðlum.

Málfríður Anna og Hlín Eiríksdætur hafa spilað alla sjö leiki Vals í sumar eins og Margrét Lára Viðarsdóttir. Hrafnhildur og Hlíf Hauksdætur hafa spilað 6 af 7 leikjum og Katrín Gylfadóttir hefur komið við sögu í tveimur leikjum.

Elísa Viðarsdóttir hefur ekki spilað með Val í sumar vegna hnémeiðsla sem hún varð fyrir í landsleik í apríl og Nína Kolbrún Gylfadóttir bíður eftir sínu fyrsta tækifæri með meistaraflokknum í sumar.

Málfríður Anna og Hlín Eiríksdætur eru báðar að feta í fótspor móður sinnar, Guðrúnar Sæmundsdóttur.

Þegar Guðrún lagði skóna á hilluna eftir sumarið 1996 búin að vinna fjölmarga titla með Valsliðinu þá hafði aðeins ein kona spilað fleiri landsleiki, bara tvær konur spilað fleiri leiki í efstu deild og einungis fjórar konur skorað fleiri mörk í efstu deild en hún.  

Guðrún spilaði alls 36 landsleiki og skoraði í þeim 4 mörk. Hún skoraði 68 mörk í 168 leikjum með Val í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×