Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur R. - Fjölnir 2-1 | Fyrsti deildarsigur Víkinga undir stjórn Loga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vladimir Tufegdzic í leiknum í kvöld.
Vladimir Tufegdzic í leiknum í kvöld. vísir/ernir
Víkingur R. lyfti sér upp úr neðsta hluta deildarinnar með ágætum sigri á Fjölni á Víkingsvelli í kvöld. Lokatölur urðu 2-1 eftir að Fjölnir komst yfir í fyrri hálfleik.

Heimamenn voru sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu. Þeir byrjuðu af krafti og pressuðu Fjölnismenn svo vel að gestirnir komust varla inn á vallarhelming andstæðingsins. Heimamenn ógnuðu nokkuð án þess þó að skapa sér afgerandi færi og átti það eftir að koma í hausinn á þeim.

Það kom nefnilega eins og köld vatnsgsusa í andlitið á Víkingum þegar Fjölnismenn skoruðu úr sinni fyrstu sókn. Marcus Solberg var fyrstur að átta sig eftir innkast við hornfána Víkings. Hann keyrði inn í teiginn þar sem hann fann félaga sinn Þóri Guðjónsson sem daðraði við rangstöðutaktík Víkinga.

Þórir fékk boltann fyrir framan markið og þurfti lítið annað en að renna boltanum í netið eftir undirbúning Solberg.

Eftir mark Fjölnismanna fór leikurinn í sama farið. Víkingar voru með boltann og sóttu meira en þeim gekk illa að skapa sér færi.

Víkingar létu þó ekki deigan síga og komu fílefldir til leiks í seinni hálfleik. Það tók ekki langan tíma að jafna leikinn með afar vel útfærðri hornspyrnu á 58. mínútu. Hún var tekin stutt og eftir gott samspil fyrir framan teiginn barst boltinn til Ragnars Braga Sveinssonar. Hann kom boltanum fyrir þar sem Ivica Jovanovic var mættur.

Stuttu seinna kom sigurmarkið þegar brotið var á Alex Frey Hilmarssyni eftir laglegan sprett. Vladimir Tufegdzic skoraði af öryggi en af myndum af dæma hefði reyndar átt að endurtaka vítið þar sem Jovanovic var kominn vel inn í teig áður en spyrnan var tekin.

Fjölnismenn reyndu af veikum mætti að jafna á lokamínútum en fyrsti sigur Víkings R. undir stjórn Loga Ólafssonar í Pepsi-deildinni staðreynd og annar leikurinn í röð þar sem Víkingur nælir í stig eftir að hafa lent undir.

Af hverju vann Víkingur R?

Víkingsmenn voru einfaldlega mun betri í öllum sínum aðgerðum en andlaust lið Fjölnis. Strax frá upphafi virtust heimamenn ákveðnir í að sigla sigrinum heim. Fjölnismenn fengu lítinn tíma á boltanum var sóknarleikur þeirra afar bitlaus.

Miðjumenn og sóknarmenn Víkings voru allir að spila vel, vel studdir bakvörðunum tveimur sem voru óþreyttir á því að koma upp til að styðja við sóknarleikinn. Þá sýndu Víkingsmenn af sér kærkominn karakter, annan leikinn í röð, með því að koma til baka eftir að hafa lent undir.

Það virðist vera mun léttara yfir öllu í Fossvoginum undir stjórn Loga sem hefur nú stýrt liðinu í tvær vikur. Það er vel þekkt að oft gengur vel eftir að skipt er um þjálfara, fróðlegt verður að sjá hvort að þessi góði andi lifi áfram út sumarið

Hvað stóð upp úr?

Alex Freyr Hilmarsson, sem verið hefur besti leikmaður Víkinga á tímabilinu átti stórleik í kvöld og var besti maður vallarins. Hann var út um allt í sóknarleik Víkinga. Hann átti lykilsendingu í fyrra marki Víkings og fiskaði vítið sem skilaði sigurmarkinu.

Ragnar Bragi Sveinsson var einnig óþreytandi að elta alla bolta sem duttu inn fyrir vörn Fjölnismanna og þá átti Ivica Jovanovic líklega sinn besta dag í röndóttu treyjunni. Hann fylgdi fordæmi Ragnars Braga og pressaði vel allan leikinn, sem gerði það að verkum að Fjölni gekk afar illa að byggja upp sóknarleik.

Hvað gekk illa?

Allur leikur Fjölnismanna, frá vörn til sóknar, var ekki til fyrirmyndar. Liðið komst yfir úr nánast sinni einni sókn í leiknum en síðan var lítið að frétta. Sóknarmennirnir fengu úr litlu að moða vegna áðurnefndrar pressu Víkingsmanna.

Þá var vörnin algjörlega sofandi í fyrra markinu þegar Víkingar fengu að tölta nánast óáreittir í gegnum vörnina eftir hornspyrnu, jafnvel þó að nánast allir leikmenn Fjölnis væru í teignum.

Ljóst er að Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnismanna, þarf að vera vel yfir hlutina með sínum leikmönnum sem töpuðu hér sínum þriðja leik í röð, sé bikarkeppnin talin með.

Hvað gerist næst?

Nú tekur við stutt landsleikjahlé þangað til 14. júní og fá liðin smá tíma til þess að jafna sig, hlaða battteríin og vinna í nýjum hlutum. Víkingar fara í góðum gír inn í hléið með sjö stig og eru búnir að lyfta sér úr neðsta pakka deildarinnar.

Fjölnismenn eru einnig með sjö stig en eiga í hættu á að síga enn neðar í deildinni, spili liðið á svipaðan hátt og það gerði hér í kvöld, eftir pásuna.

Logi Ólafsson.mynd/víkingur

Logi: Ekkert skemmtilegra en að vinna

Logi Ólafsson, stýrði Víkingi R. í fyrsta sinn á heimavelli í langan tíma í kvöld og var mjög sáttur með sína menn, ekki síst vegna þess að þeir klóruðu sigurinn til baka eftir að hafa lent undir.

„Það var klaufagangur að fá á sig þetta mark vegna þess að mér fannst við byrja leikinn mjög vel,“ segir Logi eftir leikinn.

Þetta var annar leikurinn sem liðið spilar undir stjórn Loga en í þeim fyrri nældi liðið í stig á útivelli gegn KA eftir að hafa lent 2-0 undir. Um svipaða sögu var að ræða hér nema nú nældi liðið sér í öll stigin þrjú. Logi segir mikinn karakter búa í hópnum.

„Ég held að liðið hafi vitað það allan tíma að eftir að hafa náð að jafna, og eftir að hafa lent 2-0 undir gegn KA, þá býr þetta í þessu liði. Það var ekki um neina uppgjöf að ræða heldur að reyna að vinna leikinn sem við og gerðum,“ segir Logi.

Þrátt fyrir yfirburði Víkings gekk þeim þó illa að skapa sér opin færi. Bæði mörk liðsins komu eftir föst leikatriði, víti og horn. Logi segir að liðið hefði átt að búa til betri færi úr þeim möguleikum sem liðið fékk en það hafi þó verið erfitt að mæta liði eins og Fjölni á þessum tímapunkti.

„Það er ekki heiglum hent að lenda á móti liði eins og Fjölni á þessum tímapunkti sem fengu á sig fimm mörk í síðasta leik. Dagskipunin er að halda markinu hreinu. Það var við erfiða mótherja að etja í varnarleiknum hjá þeim þannig að það er að einhverju leyti skiljanlegt að við vorum ekki nógu beittir í því,“ segur Logi.

Hann hefur nú stýrt liðinu í um það bil tvær vikur og er hann ánægður með að vera kominn aftur í stjórasætið eftir smá hlé frá leiknum.

„Mér líst vel á þetta. Það er verið að tala um að þetta sé skemmtilegra og eitthvað slíkt. Það er ekkert skemmtilegra en að vinna. Það er það sem gerir þetta skemmtilegt,“ sagði Logi.

 

Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnisvísir/ernir

Ágúst: Við þurfum að standa okkur betur

Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, var ekki kátur með sína menn í leikslok. Hann segir að sínir menn hafi ekki verið tilbúnir í leikinn í kvöld.

„Við komumst yfir í leikinn en mér fannst það ekki verðskuldað,“ segir Ágúst. „Þeir voru ekki tilbúnir að loka á þetta og buðu þeim upp á það að klára þennan leik.“

Fjölnir leiddi í hálfleik og var planið í seinni hálfleik að þétta raðirnar og verja forskotið. Það fór þó út um þúfur þegar Víkingur jafnaði með laglegu marki eftir hornspyrnu. Ágúst var allt annað en ánægður með varnarleik sinna manna.

„Mér sýndist það með fyrra markið að þeir sundurspila okkur í teignum. Það var enginn tilbúinn til þess að vinna boltann og loka fyrir. Það lýsir bara hugarfarinu í leiknum í dag,“ segir Ágúst.

Liðið hefur nú tapað þremur leikjum í röð, þar af tveimur í deildinni og segir Ágúst að það sé alveg á hreinu að allir hjá Fjölni þurfi að gera betur.

„Við þurfum að standa saman og gera betur, bæði leikmenn og við og allir í kringum þetta ef við ætlum að vinna einhverja fótboltaleiki. Það gengur ekki svona,“ segir Ágúst og bætir við að landsleikjahléið sem framundan er sé kærkomið fyrir sína menn enda töluvert um meiðsli í hóp Fjölnis.

Athygli vakti að undir lok leiksins var einum meðlimi í liðstjórn Fjölnis vikið af bekknum fyrir kjaftbrúk. Ágúst segir að menn hafi verið að reyna að kveikja í sínum mönnum til að ná í jöfnunarmarkið.

„Það er í hita leiksins. Menn voru eitthvað pirraðir og þetta var ekki alveg að falla fyrir okkur. Menn inni á vellinum voru ekki að standa sig og við vorum að reyna að fá hug í menn. Við kannski reynum að gera það á bekknum. Það virkaði ekki.“

Einkunnir

(4-3-3): Róbert Örn Óskarsson (F) 6 - Ívar Örn Jónsson 7, Halldór Smári Sigurðsson 6, Alan Alexander Lowing 6, Dofri Snorrason 7 (80. Davíð Örn Atlason) - Viktor Bjarki Arnarsson 7, Arnþór Ingi Kristinsson 7, Alex Freyr Hilmarsson 8*, Vladimir Tufegdzic 7 (76. Erlingur Agnarsson), Ivica Jovanovic 7 (89. Örvar Eggertsson), Ragnar Bragi Sveinsson 7.

(4-3-3) Þórður Ingason (F) 6 - Mees Juniors Siers 5, Hans Viktor Guðmundsson 6, Torfi Tímoteus Gunnarsson 4, Bojan Stefán Ljubicic 4 - Igor Taskovic 4 (86. Ingibergur Kort Sigurðsson), Igor Jugovic 4 (70. Anton Freyr Ársælsson 5), Gunnar Már Guðmundsson  4 (70. Birnir Snær Ingason 5 - Þórir Guðjónsson 6, Marcus Solberg Mathiasen 5, Ingimundur Níels Óskarsson 5

*Maður leiksins

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira