Innlent

Tæplega áttræð kona á Selfossi gekk þrastarunga í móðurstað

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigrún Gunnlaugsdóttir bjargaði þrastarunga sem datt úr grenitré í garðinum hjá henni.
Sigrún Gunnlaugsdóttir bjargaði þrastarunga sem datt úr grenitré í garðinum hjá henni. Vísir
Fallegt samband hefur myndast á milli tæplega áttræðar konu á Selfossi og þrastarunga sem datt úr hreiðri sínu. Sigrún Gunnlaugsdóttir bjargaði unganum áður en kettirnir náðu honum en hann býr nú við gott atlæti á heimili hennar og er fóðraður á ánamöðkum.

Sigrún Gunnlaugsdóttir, eða Rúna eins og hún er alltaf kölluð, býr við Suðurengi 1 á Selfossi. Hún fann ungann nýlega, sem var alveg ósjálfbjarga fyrir neðan grenitré hjá henni, en  hann hafði dottið úr hreiðri í trénu. Rúna fór strax að hlúa að unganum, fór með hann inn til sín og nú eru þau bestu vinir.

„Ég er bara í því að tína ánamaðka, það hefur bjargað mér vætan að þeir eru svo mikið á stéttinni, hann étur orðið svo mikið,“ segir Rúna með ungann í fanginu.

En hvað ætlar Rúna sér með ungann?

„Ég get sleppt honum þegar hann getur flogið almennilega. Ég er farin að kenna honum það að taka maðk af jörðinni, það er byrjað að koma á hann stél.“

Rúna tínir ánamaðka í ungann á lóð sinni og á gangstéttum. Þegar hún er ekki að sinna honum er hann í kassa á eldhúsgólfinu. Hún segir umönnun ungans nokkra fyrirhöfn.

„Hann er farinn að snyrta sig. Ég verð að kenna honum það, ekki gerir mamma hans það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×