Sport

Konurnar okkar unnu 74 prósent gullverðlauna Íslands á leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir með ein af sjö gullverðlaunum sínum.
Hrafnhildur Lúthersdóttir með ein af sjö gullverðlaunum sínum. Mynd/Sundsamband Íslands
Íslenskar íþróttakonur voru í lykilhlutverki í baráttu íslenska hópsins á heildarlista yfir verðlaun á Smáþjóðaleikunum í San Marinó sem lauk um helgina.

Ísland vann alls 27 gull og 50 verðlaun á leikunum en það er mjög athyglisvert að skoða skiptinguna á milli kynja. Íslensku íþróttakonurnar unnu 20 af 27 gullverðlaunum Íslands á leikunum eða 74 prósent gullverðlauna Íslands.

Konurnar okkar unnu langflest gull af kvennaliðum landsanna en næstar komu konur frá Lúxemborg og Kýpur með 11 gull eða rétt rúmlega helming af gullverðlaunum íslensku íþróttakvennanna.

Þrátt fyrir frábæra frammistöðu íslensku íþróttakvennanna í San Marinó þá endaði íslenska sveitin bara í þriðja sætinu.

Karlarnir unnu nefnilega bara 7 gullverðlaun á leikunum eða jafnmörg og karlarnir frá Mónakó. Karlasveit Lúxemborgar vann alls 25 gull og Kýpverjar tóku 18 gull.

Ísland vann samt 27 verðlaun í karlaflokki en þar af voru þrettán þeirra bronsverðlaun.

Það munaði líklega mestu í sundinu en þar unnu konurnar öll tólf gullverðlaun Íslands en Ísland náði ekki að vinna eitt einasta gull í karlaflokki í sundi í ár.



Flest gull í kvennaflokki á Smáþjóðaleikunum í San Marinó 2017

Ísland 20

Lúxemborg 11

Kýpur 11

Svartfjallaland 7

Malta 3

Liechtenstein 3

Flest gull í karlaflokki á Smáþjóðaleikunum í San Marinó 2017

Lúxemborg 25

Kýpur 18

Mónakó 7

Ísland 7

Svartfjallaland 6

San Marinó 5

Flest gullverðlaun meðal íslensks íþróttafólks á Smáþjóðaleikunum í San Marinó 2017:

Hrafnhildur Lúthersdóttir 7

Bryndís Rún Hansen 6

Eygló Ósk Gústafsdóttir 5

Arna Stefanía Guðmundsdóttir 3

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir 2

Kolbeinn Höður Gunnarsson 2

Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir 2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×