Enski boltinn

Southampton kvartar undan ólöglegum afskiptum Liverpool af sínum leikmanni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Vísir/Getty
Southampton ætlar að leggja inn formlega kvörtun til yfirmanna ensku úrvalsdeildarinnar vegna ólöglegra samskipta Liverpool og miðvarðarins Virgil van Dijk.

BBC segir frá þessu á heimasíðu sinni en fyrr í morgun komu fram fréttir af því að Liverpool væri að vinna kapphlaupið um Hollendinginn. Hinn 25 ára gamli Virgil van Dijk hefur auk þess látið það berast að hann vilji helst fara til Liverpool ef hann yfirgefur Southampton.

Virgil van Dijk er metin á 50 milljónir punda en Liverpool gæti þurft að greiða 60 milljónir punda fyrir hann ef allt fer ekki í lás eftir þessar fréttir.

Samkvæmt heimildum BBC þá hefur Liverpool ekki enn fengið leyfi frá Southampton til að tala við leikmanninn. Ekkert félag hefur rétt á því að tala við samningsbundna leikmenn nema með leyfi þeirra félags.

Hafi Liverpool rætt við Virgil van Dijk eru það augljós brot sem kallar á refsingu hvort sem það er sekt eða einhverskonar félagsskiptabann.

Southampton gæti grætt vel á Virgil van Dijk sem félagið keypti á þrettán milljónir punda frá Celtic í september 2015. Celtic fær reyndar tíu prósent af söluverðinu samkvæmt sölusamningi félaganna frá 2015.

Van Dijk missti af fimm síðustu mánuðum tímabilsins eftir að hafa meiðst á ökkla eftir tæklingu frá Jamie Vardy 22. janúar. Van Dijk missti meðal annars af úrslitaleik enska deildabikarsins á móti Manchester United.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×