Lífið

David Attenborough sér eftir því að hafa ekki eytt nægum tíma með börnum sínum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
David Attenborough var heiðraður fyrir ævistarf sitt í Ástralíu í febrúar síðastliðnum.
David Attenborough var heiðraður fyrir ævistarf sitt í Ástralíu í febrúar síðastliðnum. Vísir/getty
Sjónvarps- og náttúruvísindamaðurinn David Attenborough segir sína helstu eftirsjá á löngum ferli vera að hafa ekki eytt nægum tíma með börnum sínum. Þá hugsar hann títt um dauðann og hefur áhyggjur af fólksfjölgun í heiminum.

Í viðtali við heimildarmyndagerðarmanninn Louis Theroux, sem birtist í nýjasta tölublaði Radio Times, sagðist Attenborough hafa verið „ótrúlega heppinn“ í lífinu en farsæll starfsferillinn hafi verið tímaþjófur í sambandi hans og barna sinna, Roberts og Susan.

„Ef þú átt sex eða átta ára barn og þú missir af þremur mánuðum í lífi þess, þá er ekki hægt að bæta upp fyrir það. Þú missir af einhverju.“

Attenborough, sem fagnaði 91 árs afmæli sínu í byrjun maí, sagðist einnig hugsa stöðugt um dauðann. „Það verður alltaf líklegra og líklegra að ég deyi á morgun.“

Aðspurður hvort hann búist við því að eitthvað taki við eftir dauðann svaraði Attenborough hreinlega: „Nei.“

Í viðtalinu ræddi Attenborough einnig fólksfjölgun jarðar, sem sjónvarpsmaðurinn telur eitt stærsta vandamál sem steðjar að mannkyninu.

„Það er grundvöllur margra af vandamálum okkar. Af hverju er fólk að fara þvert yfir Evrópu akkúrat núna? Það er að hluta til vegna pólitískra vandamála en einnig vegna þess að það að vera á lífi er mjög, mjög erfitt. Fólk er þarna alveg á brúninni,“ sagði Attenborough.

Hér fyrir neðan má sjá myndbrot af David Attenborough og viðskiptum hans við letidýr:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×