Enski boltinn

Diego Costa: Chelsea vill losna við mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa bendir á Chelsea-merkið.
Diego Costa bendir á Chelsea-merkið. Vísir/Getty
Diego Costa, framherji Chelsea, raðaði inn mörkum á tímabilinu og átti mikinn þátt í að Chelsea varð enskur meistari á ný. Hann er hinsvegar ekki inn í framtíðarplönum knattspyrnustjórans Antonio Conte.

Diego Costa er bara 28 ára gamall og skoraði 20 mörk í 35 leikjum með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í vetur en nú lítur út fyrir að hann sé á förum frá Stamford Bridge.

„Ég er leikmaður Chelsea en þeir vilja samt ekki hafa mig lengur,“ sagði Diego Costa í viðtali við BBC.

„Antonio Conte sendi mér skilboð um að ég yrði ekki áfram hjá Chelsea. Conte sagði að hann ætlaði ekki að reikna með mér á næstu leiktíð,“ sagði Costa.

„Samband mitt og stjórans hefur verið slæmt á þessu tímabili. Það er synd. Ég er þegar búinn að áframsenda skilaboðin til fólksins hjá Chelsea svo þau geti fundið út úr þessu,“ sagði Costa.

Diego Costa kom til Chelsea frá Atletico Madrid fyrir 32 milljónir punda árið 2014 en hafði þá spilað fjögur tímabil með spænska liðinu. Hann hefur verið orðaður við endurkomu til Atletico Madrid en það gæti verið erfitt því félagið má ekki semja við nýja leikmenn fyrr en í janúarglugganum.

„Fimm mánuðir án þess að spila. Ég veit ekki. Þetta er flókið en fólk veit að ég elska Atletico mikið og væri meira en til í það að búa aftur í Madrid. Það væri gott að koma aftur en það er erfitt að geta ekki spilað í fjóra eða fimm mánuði. Þetta er HM-ár og margt að hugsa um. Ég þarf að spila,“ sagði Diego Costa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×